Telur opinbera þjónustu í dreifðum byggðum landsins ábótavant

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur nauðsynlegt að tryggja opinbera þjónustu í dreifðum byggðum landsins þar sem henni er ábótavant, samkvæmt fréttatilkynningu frá þingflokknum. Þá hefur Iðnaðarráðherra falið Byggðastofnun að gera athugun á þjónustuþörf á landsbyggðinni fyrir fjármálaþjónustu, póstþjónustu o.fl.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mótmæli fyrirvaralausri lokun starfsstöðva Landsbankans víða um land að undanförnu og skorar á stjórnendur bankans að taka upp viðræður við heimaaðila og sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum um tilhögun þjónustunnar.

„Þó svo að óumflýjanlegt hafi verið að draga úr umfangi fjarmálastarfsemi hér á landi í kjölfar hrunsins verður að gera þá kröfu til Landsbankans að hann axli samfélagslega ábyrgð sína og viðhaldi þeirri lágmarks bankaþjónustu sem hann hefur veitt á landsbyggðinni þar til aðrar lausnir finnast,“ segir í tilkynningu.

Í þessu samhengi hvetur Þingflokkur VG Alþingi til að samþykkja frumvarp sem liggur fyrir þinginu um sparisjóði sem mikilvægt er að hljóti afgreiðslu þingsins til að sparisjóðirnir geti treyst stöðu sína.

„Það frumvarp miðar að því að sparisjóðirnir verði góður kostur fyrir nýja aðila að leggja þeim stofnfé eða eigið fé auk þess sem sú löggjöf er talin falla betur að eðli sparisjóðanna,“ segir loks í fréttatilkynningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir