Tengill gefur tölvur til skóla í Úganda

Fyrir skemmstu skipti Tengill á Sauðárkróki út tölvum í eigu fyrirtækisins í skólasamfélaginu í Skagafirði og hefur ákveðið að gefa tölvurnar til skóla í Úganda í Afríku, með aðstoð frá ABC barnahjálp.

„Það sem okkur finnst kannski gamalt er alveg nýtt í augum þeirra sem eru að fara nota þetta. Það er frábært að það skuli vera hægt að finna not fyrir það sem við hefðum fargað,“ sagði Gísli Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Tengli í samtali við Feyki.

Eftir að hugmyndin kviknaði um að gefa tölvurnar til hjálparstarfs setti Gísli sig í samband við ABC barnahjálp sem tók afar vel í erindið. Í kjölfarið kannaði ABC barnahjálp hvar þörfin væri mest og vinna nú að því að finna flutningsaðila fyrir tölvurnar, sem bíða innpakkaðar á sex vörubrettum á verkstæði Tengils eftir því að komast í gagnið á ný. Einnig er verið að vinna að því að útvega leyfi fyrir innflutningnum til Úganda. „Síðast þegar ég vissi þá er þetta bara að detta í gang,“ sagði Gísli.

Tölvurnar eru 91 talsins og hafa starfsmenn Tengils tæmt þær af gögnum, sett upp nýtt stýrikerfi og eru þær nú í raun eins og nýjar tölvur. Gísli segist hafa fundið fyrir miklu þakklæti fyrir gjöfina en samkvæmt ABC barnahjálp er þörfin mikil fyrir slíkum útbúnaði í skólakerfinu í Úganda.

Fleiri fréttir