Textíll er miklu meira en bara prjón og vefnaður :: Margrét Katrín Guttormsdóttir umsjónarmaður TextílLabsins í viðtali

Margrét Katrín Guttormsdóttir flutti til Blönduóss fyrir einu og hálfu ári til að taka við umsjón TextílLabi Textílmiðstöðvar Íslands. Myndir: PF.
Margrét Katrín Guttormsdóttir flutti til Blönduóss fyrir einu og hálfu ári til að taka við umsjón TextílLabi Textílmiðstöðvar Íslands. Myndir: PF.

Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi hefur verið í stöðugri sókn allt frá stofnun Textílseturs Íslands árið 2005 og ekki síður eftir að það, ásamt Þekkingarsetrinu á Blönduósi sem stofnað var 2012, leiddu saman hesta sína 8. janúar 2019 og úr varð sú Textílmiðstöð sem við þekkjum í dag. Vel útbúið TextílLab Textílmiðstöðvarinnar stendur fólki til boða og kíkti Feykir í heimsókn á dögunum.

Á heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar kemur fram að meginmarkmið þess sé að vera alþjóðleg miðstöð öflugrar rannsóknar- og þróunarstarfssemi í hönnun og textílframleiðslu, textíllistum og handverki í textíl. Jafnframt sinnir Textílmiðstöðin því hlutverki að bjóða upp á aðstöðu fyrir háskólanám og fullorðinsfræðslu með aðgengi að fjarfundabúnaði og próftöku í samstarfi við aðila háskóla og símenntunarstöðva.

Í starfsemi Textílmiðstöðvarinnar er lögð áhersla á nýsköpunar-, þróunar- og samstarfsverkefni sem stuðla að atvinnuuppbygginu í tengslum við textíl, menningu og sögu svæðisins með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni. Í Kvennaskólanum er einnig rekin alþjóðleg Textíllistamiðstöð, Ós, í samstarfi við Textílmiðstöðina.

Innan Textílmiðstöðvarinnar er einnig að finna fyrstu stafrænu textílsmiðjuna á Íslandi, TextílLab, sem opnuð var á Þverbraut 1 á Blönduósi þann 21. maí 2021. TextílLab er hluti af stóru Evrópuverkefni CENTRINNO sem Textílmiðstöð Íslands tekur þátt í og einnig fjármagnað með styrk úr Innviðasjóði, Lóu-nýsköpunarstyrk á landsbyggðinni og Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Textílsmiðjan er útbúin stafrænum tækjum sem tengjast textílvinnslu, eins og vefnaði, prjóni, þæfingu, útsaumi, raf- og líftextíl.

Feykir tók hús á umsjónarmanni TextílLabsins, Margréti Katrínu Guttormsdóttur, textíl- og vöruhönnuði, en hún heldur einnig utan um þau fjölmörgu námskeið sem haldin eru í TextilLabinu. Samhliða þessu er hún einnig nemandi við Fabricademy , sex mánaða námi sem Textílmiðstöðin heldur.

„Ég hef verið hér í rúmlega eitt og hálft ár, flutti frá Reykjavík til að starfa hér og byggja upp starfsemina í TextíLabinu. Þetta TextílLab verður til vegna þess að Textílmiðstöð Íslands tekur þátt í stóru Evrópuverkefni í þrjú og hálft ár þar sem við búum til nýsköpunarmiðstöð í tengslum við alls konar hluti. Í Frakklandi er áherlsla lögð á mat, í Tallin á matjurtagarða og í Sviss er áherslan á textíl eins og hjá okkur, svo dæmi séu nefnt“ útskýrir Margrét.

Á Blönduósi er lögð áhersla á textílframleiðslu og nýsköpun henni tengdri og þannig fékkst sá styrkur sem gerði verkefnið framkvæmanlegt. Margrét segir að áhersla þeirra sem að verkefninu á Blönduósi standa beinist að því að skoða íslenskt hráefni og finna leiðir til þess að nýta það í framleiðslu á textíl. Hún bendir á að mikil textílframleiðsla hafi verið stunduð áður en í dag er nánast allur textíll innfluttur og því hætta á að nauðsynleg þekking sé að hverfa. „Þess vegna viljum við koma þessu aftur af stað. Hér í TextíLabinu er aðstaða þar sem frumkvöðlar, og fleira fólk, getur komið og nýtt sér rannsóknir á verkefnum, búið til prótótýpur o.s.frv. Við fókusum á hráefni eins og ullina og fiskroðið en svo eru við farin að skoða nýtingu á hampi o.fl.

Vannýtt verðmæti

Fyrr á árinu greindi Bændablaðið frá því að á meðan sala á ull eykst dregst ullarinnlegg bænda saman og segir Margrét þau hafa verið að skoða hvernig ullin nýtist í dag og hvað um hana verður. Hún segir að verið sé að kortleggja hvað sé gert við hana og skoðað hvað gert við annars flokks ull og þá sem ekki hefur ennþá verið hægt að nýta. „Hingað hafa komið hönnuðir sem hafa verið að gera verkefni með annars flokks ull hvaða möguleikar felast í framleiðslu úr henni. Ef það heppnast vel væri hægt að auka verðmæti ullarinnar sem skilar sér til bænda. Þetta er dýrmætt efni,“ segir hún af sannfæringu og óneitanlega leitar hugurinn til þeirra bænda sem sífellt reyna að auka verðmæti afurða sinna.

Roðin koma frá Sauðárkróki og eru þekkt stærð en hampurinn er alveg ný afurð hér á Íslandi en með óendanlega möguleika að því er virðist.

„Við sjálf höfum ekki komið því af stað en er eitthvað sem við lítum til og ætlum að sækja um styrki til að skoða betur þar sem þetta er eitthvað sem við liggjum á og er í undirbúningi. Svo erum við einnig að skoða önnur hráefni í nágrenni okkar eins og þarann og matarúrgang, sem er líka að koma sterkt inn.“

Blaðamaður sperrir eyrun þegar hann heyrir að hægt sé að nota þara í textílframleiðslu og hváir í forvitni sinni og fær útskýringu hjá áhugasamri Margréti: „Það er mjög skemmtilegt. Í þessu Fabricademy námi, sem hefur verið sex mánaða nám í vetur, hafa nemendur verið að skoða nýjungar í vinnslu á textíl. Þetta snýst um að finna nýjar leiðir og skoða þetta í tengslum við líffræði, raftækni og hefðbundið handverk. Alberte Bojesen, ein af fjórum nemendum í Fabricademy, fór að skoða þara sem lífefni, eða biomaterial sem er aðeins þekktara heiti yfir þetta, og notar þarann sem hún finnur hér við Blönduós og býr til þaraleður sem er eins og leðurlíki. Það er hægt að klippa, skera, sauma og hvað annað.“

„Og er þetta nógu sterkt,“ spyr blaðamaður efins um þaraleður. „Já einmitt, nógu sterkt fyrir hvað?“ spyr hún á móti og bætir við: „Það geta ekki öll efni nýst í sama tilgangi en þetta er á rannsóknar- og frumkvöðlastigi núna. Þetta snýst líka um að sýna hvað við höfum í kringum okkur og hvaða efni er mögulega hægt að nota, til dæmis í staðin fyrir plast eða aðra hluti sem eru í náttúrunni okkar að eilífu.“

Rafmagn í textíl

Á síðustu áratugum hafa komið fram verulegar tækninýjungar við hönnun, þróun og framleiðslu á textíl og segir í riti Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Stafrænn textíll og aðrar nýjungar, að ein af þeim sé svonefndur raftextíll eða stafrænn textíll. Sú þróun tengist þróuninni á stafrænni tækni og búast megi við örum breytingum fyrir iðnaðinn næstu árin. Hugtakið „rafeindatextílvörur“ er notað þegar efni hefur stafræna íhluti, t.a.m. lítinn rafrásabúnað, felldan inn eða saumaðan í það. „Stundum er hugtakið „snjallflíkur“ eða „snjallefni“ notað í staðinn,“ segir í ritinu.

„Já þetta heitir soft eTextils á ensku og er búið þannig til að rafleiðslur eru saumaðar inn í textíl ásamt öðrum rafbúnaði eins og nemum, ljósum, hátölurum o.fl. Þetta getur orðið hluti af fötunum okkar, skónum eða hverju sem er. Annar nemandi hjá okkur, Emma Shannon sem er að gera lokaverkefni í Fabricademy, notar fiskroð og er að búa til hjartalík form og setur skynjara í. Þegar fólk snertir þau fer hjartslátturinn í burtu en það fer eftir því hvernig fólk leikur sér með þetta, hversu mikið af John Lennon lagi kemur því í gang á ný. Hún fékk sjálf hjartaáfall og hana langar til að sýna fólki þau hjartavandamál sem eru allt í kringum okkur á skemmtilegan hátt,“ segir Margrét.

Það litla sem undirritaður mundi eftir af mjúkum raftextíl voru húfur og vettlinga þar sem búið er að koma fyrir ljósi eða þráðlausum hátölurum fyrir og segir Margrét það einmitt vera hluta af þessu. „Þetta sýnir að það er vel hægt að setja þetta líka í mjúka hluti eins og textíl. Það þarf ekki alltaf að vera harðir hlutir eins og tölvur, sími eða annað.“

Vel sótt þekkingarsmiðja

Margrét segir að í TextílLabið komi hönnuðir og frumkvöðlar hvaðan æva að til að vinna við sín verkefni og þá aðallega tengt ullinni. Þá koma tæki smiðjunnar sterk inn ekki síst þurrþæfingarvélin sem leysir vatnsþæfinguna af hólmi en vélin sú er með sérhannaðar þæfingarnálar. „Hún er sérlega góð til að binda saman ull eða önnur efni, t.d. textílafganga, góð vél til að endurnýta og endurvinna afgangsefni. Við höfum t.d. fengið fólk frá Danmörku sem kom sérstaklega hingað til að vinna á þessari vél,“ segir Margrét og upplýsir að slíkar vélar standi fólki ekki til boða annars staðar. Þessa stundina dvelur á Blönduósi listakona frá Ítalíu sem fékk styrk úr Erasmus til að nýta sér aðstöðuna hjá TextílLabinu í þrjá mánuði. Blaðamanni er sýndur efnisbútur úr textílafgöngum sem þæfður hafði verið í vélinni og er ansi hreint ólíkur öðru þæfðu efni sem hann man eftir. Einnig sýnir hún þæfða hvíta ull sem hefur verið laserskorin í ákveðið munstur. Sannarlega athyglisvert.

Margrét segir að auk hönnuða og frumkvöðla sækir fólk frá listamiðstöðinni smiðjuna og nemendur en einnig hinir venjulegu grúskarar og áhugafólk um textíl. Þá eru grunnskólanemar og kennarar á svæðinu mikilvægur hópur.

Öll tæki smiðjunnar eru í sama húsnæði enda ætlast til þess að hægt sé að vinna með nokkur tæki í sama verkefni. Auk þæfingarvélarinnar eru til staðar m.a. útsaumsvél sem getur saumað út í allt að eins sentímetra þykkt efni, sem er mjög gott fyrir þæfðu ullina sem getur orðið ansi þykk, laserskeri, vínylprentari og þrívíddarprentari.

„Við erum líka með stafræna prjónavél, mjög fjölhæfa, sem er sérstök að því leyti að hún getur t.d. prjónað heila flík í einu lagi og það sem er svo skemmtilegt líka er að hún getur prjónað úr íslensku ullinni. Hér eru nokkrir hlutir sem hafa verið prjónaðir í henni og býður upp á mikla möguleika í hönnun og nýsköpun.“ Að sögn Margrétar er prjónavélin svo til nýkomin og enn verið að læra á alla mögulegar útfærslur.

„Við búum yfir yfirgripsmikilli þekkingu og viljum miðla henni til fólks og kynna þessi tæki sem stendur fólki til boða. Þannig aukum við nýsköpun við hönnun og framleiðslu á textíl og sköpum fleiri verkefni í kringum textíl, sem þá vonandi ýtir undir þá fjölmörgu möguleika sem hægt er að framkvæma hér á Íslandi. Hér eru einnig tveir stafrænir vefstólar,“ áréttar Margrét og sýnir vefnaðarmynstur sem vefstóllinn bjó til eftir dansi úr myndavél, eins ótrúlegt og það hljómar og er hennar rannsóknarverkefni úr Fabricademy.

Dansinn er þá tekinn upp á myndavél sem tölvuforrit svo breytir í munstur. Það munstur yfirfærist í svarta eða hvíta pixla sem loks stjórna því hvaða mynstur kemur fram í textílnum. „Það eru sem sagt litlar bylgjur sem sýna hversu mikill dans var stiginn, hvort það var einhver taktur o.s.frv. Þetta verk mun vonandi hanga einhvers staðar í framtíðinni og dansa í vindinum. Þetta er líka gert til að sýna að það er hægt að búa til textíl á mjög mismunandi hátt og líka að vekja upp spurningar um hvað textíll er.

Það er líka eitthvað sem maður vill, meiri umræðu um hvað textíll er því hann er miklu meira en bara prjón og vefnaður. Hann getur einnig verið líftextíll sem kemur í stað gifs í mótunarferli keramiksframleiðslu en það er einnig hluti af rannsóknarverkefni Alice Sowa sem er fjórði nemandi Textílmiðstöðvarinnar hjá Fabricademy.

Litað með bakteríum

Það nýjasta sem er á döfinni hjá Margréti og samstarfsfólki hennar er að prófa sig áfram með það að lita ull með gerlum eða bakteríum en styrkur fékkst úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Norðurlands vestra í þeim tilgangi. „Við notum bakteríur sem skilja eftir sig fjólubláan lit og erum að skoða hvernig við getum bæði litað ull með þessari bakteríu, sem hefur ekki verið gert mikið áður en oftast er litað á silki. Við erum líka að skoða, í samstarfi við BioPol á Skagaströnd, hvort við getum nært bakteríuna með íslenskum matarúrgangi.

Oftast eru efnin sem við notum keypt utan frá en við munum skoða hvort við getum gefið henni annan mat að borða og í leiðinni að lita íslenska ull með þessari bakteríu,“ segir Margrét og bendir á að eitt af því sem er mest mengandi í textílframleiðslu sé litunin. „Við litum mikið með mengandi efnum og notum mikið vatn sem verður skaðlegt eftir litunina en með bakteríunni notum við 500 sinnum minna af vatni til að lita textíl heldur en við værum að nota með hefðbundnum hætti. Það er hægt að fá mismunandi liti, þessi fjólublái er algengasti liturinn ekki síst vegna þess að gerillinn er hættuminnstur gagnvart okkur.

Ef við værum að fara að nota aðra liti, eins og bleikan eða gulan, þyrftum við að vera í faglegra rannsóknarrými eins og hjá BioPol. En við erum bara að prófa þessa bakteríu núna. Ef þetta gengur vel erum við komin með nýja leið til að lita íslenska ull og vonandi getum við stækkað það verkefni.“

Spennandi námskeið

Eins og sést hér að framan er heilmikið að gerast og margt spennandi í gangi hjá Textílmiðstöðinni og eflaust margir sem hafa hugsað sér að prófa en ekki komið sér af stað. Ef einhver hefur áhuga á að vinna í smiðjunni segir Margrét það velkomið. Hún bendir á að áður en fólk mæti væri gott að hafa einhverja hugmynd um hvað viðkomandi langar að gera. „Og síðan er alltaf hægt að hafa samband með tölvupósti en netfangið er hægt að finna á síðu Textílsmiðstöðvarinnar. Þar mætti t.d. segja: ég er að pæla í að gera þetta, hvernig sérðu það fyrir þér, eða eitthvað svoleiðis, og ég er alltaf tilbúin að að aðstoða. Svo er alltaf hægt að koma hingað en við erum með opnar helgar einu sinni í mánuði þar sem hægt er að koma og gera verkefnin sín og fá aðstoð hjá okkur. Það sem er líka mjög spennandi núna er að við ætlum að fara af stað með röð námskeiða í apríl þar sem nemendur hjá Fabricademy verða á staðnum og deila þekkingu sinni og reynslu. Þetta eru námskeið í allt frá náttúrulitun upp í að búa til mjúkar rafrásir þar sem ljós eru látin blikka á textíl.“

Nánari upplýsingar um námskeiðin, tækin og öll önnur verkefni og rannsóknir Textílmiðstöðvarinnar má finna á heimasíðu hennar textilmidstod.is.

Áður birst í 11. tbl. Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir