„Það bara gerðist eitthvað!“ / HIMMI SVERRIS

Hilmar Sverrisson (Himmi Sverris) hefur víða komið við í músíkinni, enda telur hann það vera helsta afrek sitt í tónlistinni að vera á lífi og hafa getað haft tónlist sem aðalatvinnu síðustu 30-35 ár og fengið að starfa með flestum bestu tónlistarmönnum landsins. Himmi fæddist á Króknum árið sem rokkið varð til (1956), ólst upp í Viðvík til átta ára aldurs en flutti þá á Krókinn og bjó þar ansi lengi. Kona hans er Vestur-Húnvetningurinn Jenný Ragnarsdóttir og búa þau nú í Kópavogi.

Hljóðfæri: Aðallega ýmiskonar hljómborð. Helst píanó í dag, Hammond hérna áður meðan ég nennti að bera það. Annars hef ég verið bassaleikar, gítarleikari, trommari og harmonikuleikar í böndum. Ég hef aldrei þolað neitt sem heitir synthesizer, þar set ég mörkin. Syntinn var allsráðandi í "80 og einhvernvegin var ég ekki að fíla það tímabil.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Núna... Lets Face the Music and Dance með Diana Krall.

Uppáhalds tónlistartímabil? Tímabilið alveg fram að discóinu, eftir það varð allt eitthvað svo svart/hvítt músíklega. Reyndar margt gott að gerast í dag og frábærir einstaklingar að koma fram til dæmis hér á landi og er það mikið Tónlistarskóla FÍH að þakka.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Gott proggrokk gamalt og nýtt. Er til dæmis mjög stoltur af því sem sonur minn er að gera sem bassaleikari í Agent Fresco. Það virkar sem einskonar blanda af allskonar proggi sem ég hlustaði mikið á.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var eiginlega aldrei þögn, foreldrar mínir spiluðu plötur í stofunni, harmonikutónlist, óperur, kóra og eldri dægurlög og bý ég vel af þeirri reynslu.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Man það nú ekki en fyrsta svona alvöruplatan, að mér fannst, sem ég keypti var Dinosaur Swamps með hljómsveitinni The Flock. Hún var búin að vera marga mánuði til sölu hjá Adda Blöndal og Mæju í gömlu bókabúðinni. Síðan komu plötur með Santana, Yes, Jethro Tull og fleirum. Svakalega var gaman – alltaf nýtt frábært efni. Þó skömm sé að þá man ég ekki eftir að hafa keypt nema þrjá íslenskar plötur um æfina. Magic Key með Náttúru, Whats Hidden There með Svanfríði og Lifun með Trúbrot.

Hvaða græjur varstu þá með? Fékk mér dýrindis Dúal hjá Itta sem mér fannst alltaf svolítið lint sound úr og fékk mér svo Nord-mende græjur sem blöstuðu niður allann Öldustíg. Ég bjó á Hólavegi 20.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf eða fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Fékk aldrei plötu í jólagjöf, held ég. En fyrstu lögin voru If I Fell og Things We Said Today af A Hard Day's Night plötu Bítlanna. Eftir það var bara ekki aftur snúið. Ég meira að segja man hvernig veður var, hvar ég var staddur í íbúðinni heima og hvaða mat mamma var að elda þegar ég heyrði fyrst í Bítlunum, þó án þess að hafa hugmynd um hverjir þetta voru. Það bara gerðist eitthvað!

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það eru sérstaklega fjögur lög: Bohemian Rhapsody, Smoke on the Water, Stairway to Heaven og Hotel California. Allt mjög góð lög – bara eitthvað svona overdós. Ef maður kemur inn í Guitar Center í Ameríkunni þá er gjarna listi upp á vegg þar sem stendur EKKI spila þessi ca. 10 lög og merkilegt nokk þessi lög eru öll á þessum lista. Þessi listi er til að vermda geðheilsu afgreiðslumanna.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Birds með Anouk. Annars er varla hægt að finna annan eins Júróvision skúnk eins og mig. Er jafnvel til í að fara að skúra frekar en þurfa að fylgjast með júró. Ég sagði JAFNVEL að skúra. En þá bara voðlega lítið gólf.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Fengi einhvern annan til að velja. ég hef aldrei verið góður discotekari. Ekki viss um að Gentle Giant eða King Crimson kæmi neinum öðrum en mér í fíling.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Close to the Edge með Yes nú eða plötuna Tapestry með Carol King.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Tæki konuna mína með, en hvert og til að heyra hvað veit ég ekki. Jú, kannski á tónleika með Alison Krauss og bandinu hennar, helst í USA.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Kasettum með hljómsveitunum Marhall Tucker Band, The Band, Yes og Traffic.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mikil áhrif á þig? Hefur aldrei dreymt um að vera annar en ég er. Pabbi var harmonikuleikari og hafði gríðarleg áhrif á mig sem ég bý að alla tíð.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Sennilega Close to the Edge með Yes og íslensk Magic Key með Náttúru

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Eins og er er ég með playlista með Diana Krall sem er í miklu uppáhaldi hjá mér:
Devil May Care.
Popsicle Toes
I´ve Got You Under My Skin
The Best Thing For You
Do It Again
Lets Face the Music and Dance.

...bara verst hvað hún Diana mín á leiðinlegann mann (Elvis Costello).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir