Það er DalHún dagur í dag
Viðræður um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar eru í fullum gangi og í dag fór upplýsingavefur samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna í loftið á léninu https://dalhun.is.
Á heimasíðu Húnaþings vestra er sagt frá því að á vefnum sé að finna ýmsar upplýsingar um sameiningarviðræðurnar og íbúakosningar um sameiningartillöguna, auk frétta af viðræðum og viðburðum. Á síðunni má einnig sjá svör við spurningum sem algengt er að íbúar velti upp í tengslum við sameiningarviðræður og eyðublað fyrir nýjar fyrirspurnir ef lesendur finna ekki svarið á síðunni.
Hægt verður að nálgast allt kynningarefni um sameiningarviðræðurnar á vefnum, m.a. glærur og upptökur frá íbúafundum, fundargerðir og fleira.