Það er komin skekkja í deildirnar

Í gær ákvað Knattspyrnusamband Íslands að keppni í Íslandsmótum meistaraflokksliða yrði haldið áfram í nóvember, svo lengi sem grænt ljós verði gefið á knattspyrnuiðkun í kjölfar þriðju COVID-bylgjunnar. Segja má að ákvörðunin hafi komið á óvart en eftir því sem Feykir hafði hlerað þóttu meiri lýkur en minni á að mótið yrði flautað af. Kvennalið Tindastóls á því einn heimaleik eftir og ætti þá að geta tekið á móti bikarnum góða eftir nokkra bið. Það er hins vegar verra ástandið á körlunum, sem eiga eftir að spila tvo leiki, þar sem mikið hefur kvarnast úr hópnum og erlendir leikmenn horfið á braut.

Feykir hafði samband við Jamie McDonough, þjálfara karlaliðs Tindastóls, og Jón Stefán Jónsson, annan þjálfara kvennaliðs Tindastóls og spurði þá út í ákvörðun KSÍ og stöðu liða þeirra. Við byrjum á Jónsa.

Hvað finnst þér um þá ákörðun KSÍ að halda áfram með Íslandsmótið í knattspyrnu? „Mér finnst ákvörðunin skiljanleg í ljósi reglugerðarinnar þó ég telji um leið að það hefði átt að slaufa deildum sem væru ráðnar eins og t.d. deildin okkar þar sem ljóst er hverjir fara upp, hverjir falla og meira að segja hverjir vinna deildina. Auk þess má segja að alltaf sé komin skekkja í deildirnar úr þessu, liðin eru allt öðruvísi mönnuð fyrir þennan lokasprett en áður. Má þar nefna að í Lengjudeild karla til að mynda á Magni heimaleik gegn Vestra og Vestri hefur sent meir en helming erlendu leikmanna sinna heim. Það er skekkja. Ég hins vegar eins og ég segi vil ekki gagnrýna KSÍ fyrir þessa ákvörðun, hún hefði alltaf verið erfið og engin góð ákvörðun í boði í raun.“

Hvernig er staðan á kvennaliði Tindastóls ? „Liðið okkar er klárt í slaginn, stelpurnar okkar frá USA fara frá landinu fyrri part nóvembermánaðar svo ef það dregst að spila við Völsung fram að þeim tíma þá verðum við án þeirra í þessum leik. Hins vegar tel ég að það sama gildi um Völsung, þær voru með stelpur frá Bandaríkjunum líka. Það verður því alltaf ákveðins jafnfræðis gætt með þennan staka leik. Við erum að öðru leyti nánast fullmönnuð ef horft er á liðið okkar frá síðustu leikjum, utan við þau langtímameiðsl sem höfðu þegar komið upp. Eins og flestir vita er Hrafnhildur því miður með slitin krossbönd. Mér þykir ansi líklegt að það verði hálfgert æfingaleiks andrúmsloft í kringum þennan leik frekar en að þetta virki eins og síðasti leikur í deild. Það má segja að þetta verði fyrsti leikur í undirbúning fyrir sjálfa Pepsí Max deildina,“ segir Jónsi en ljóst er að Amber, Jackie og Mur fara af landi brott snemma í nóvember og er verið að skoða með hvort hægt verði að spila leikinn áður en þær yfirgefa klakann.

Hvers vegna tók það þrjár vikur að komast að þessari niðurstöðu?

Feykir spurði Jamie McDonough, þjálfara karlaliðs Tindastóls, hvort hann gæti teflt fram fullmönnuðu liði í síðustu tveimur umferðunum í 3. deildinni. „Já, við erum með nokkra leikmenn. Ég og Arnar Skúli [fyrrverandi þjálfari] munum spila á miðjunni og Rúnar Rúnarsson [formaður knattspyrnudeildar] sem framherji,“ segir hann léttur og heldur áfram. „Ef það er einhver í bænum sem er skráður í Tindastól og langar í ferð til Vopnafjarðar, láttu okkur vita! Ef þú vilt spila þá væri gott að þú gætir; gengið (hratt myndi hjálpa), klæðst stórri peysu og notið þess að vera úti í snjónum,“ segir Jamie en ljóst er að hann hefur ekki úr stórum hópi leikmanna að velja og spurning hvort það næst í lið. 

Hvað finnst þér um að klára eigi Íslandsmótið í knattspyrnu? „Ákvörðunin um að halda áfram að spila er í samræmi við reglurnar sem KSI setti í sumar en voru ekki vel ígrundaðar. Mér finnst þetta vitlaust, en þetta er sanngjarnt vegna reglnanna sem KSÍ setti,“ segir Jamie og vísar til þess að KSÍ setti sér það viðmið að hægt væri að klára Íslandsmótið og spila fram að mánaðamótum nóvember-desember.

„En hvað mun gerast ef smit greinast á Vopnafirði eftir að lið Tindastóls spilar þar,“ spyr Jamie. „Hvað ef leikmenn okkar eiga sök á útbreiðslu hér á Sauðárkróki? Ég er með tvo leikmenn sem munu ekki hætta á það. KSI er nú að segja þeim að hætta fjölskyldu sinni og fólki sem þeir vinna með eða gefa skít í knattspyrnufélagið sitt þegar það þarf á þeim að halda. Stærsta vandamálið sem ég sé við þessa ákvörðun er: Af hverju tók þrjár vikur að taka þessa ákvörðun? Hefðum við vitað niðurstöðuna fyrr hefðum við getað reynt að halda erlendu leikmönnunum. Við hefðum getað reynt að halda Pablo á láni. Ég held að það sé eitthvað mjög slæmt að gerast hér, satt að segja. Og ég mun spyrja spurninganna sem leikmennirnir vilja fá svör við líka. Ég mun ekki hætta fyrr en ég fæ svörin,“ segir Jamie og er klárlega ósáttur.

Það er því ljóst að það eru verulega skiptar skoðanir um ákvörðun KSÍ og engin ákvörðun auðveld. Og alls ekki víst að mótið verði klárað þrátt fyrir þessa niðurstððu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir