Það mun reynast erfitt að fjármagna lögbundin verkefni

Hrefna er oddviti í Akrahreppi.
Hrefna er oddviti í Akrahreppi.

Oddviti Akrahrepps er Hrefna Jóhannesdóttir sem auk þess er skipulagsfulltrúi hjá Skógrækt ríkisins, skógfræðingur og skógarbóndi á Silfrastöðum. Hún svaraði spurningum Feykis um stöðu Akrahrepps og framtíðarhorfur á tímum COVID-19. 

Íbúar í Akrahreppi eru um 200 talsins en þar eru flest störf tengd landbúnaði eða hjá ríki eða sveitarfélaginu og loks störf tengd ferðaþjónustu.

Er mikið atvinnuleysi í sveitarfélaginu? Nei, en vissulega hafa sumar starfsgreinar orðið fyrir verulegum samdrætti.

Hafa tekjur sveitarfélagsins, útsvar og framlög, minnkað vegna COVID? Já, tekjur hafa dregist saman á árinu og gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti á næsta ári.

Hafa útgjöld vegna félagsþjónustu og æskulýðsstarfs aukist á tímabilinu? Að mjög litlu leyti.

Hvernig er útlitið fyrir næsta ár? Það stefnir í að reksturinn þyngist á næsta ári, gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í tekjum og á sama tíma er gert ráð fyrir auknum framkvæmdum.

Mun sveitarfélagið fara í einhverjar framkvæmdir til að styðja við atvinnulífið á svæðinu? Akrahreppur heldur ótrauður áfram að bæta innviði og sinna viðhaldi. 

Er eitthvað sem þér finnst að ríkið mætti gera betur til að styðja við sveitarfélögin? Auknar skyldur sveitarfélaga og færsla á verkefnum til þeirra kallar á meiri stuðning við fjárhag sveitarfélaga. Það stefnir í samdrátt í tekjum hjá flestum sveitarfélögum og þá mun reynast mörgum erfitt að fjármagna lögbundin verkefni. Mikilvægt er að fjármunir í Jöfnunarsjóð verði auknir.

Hver er þín tilfinning fyrir líðan íbúa og hvernig finnst þér þeir hafa brugðist við þessum breyttu aðstæðum sem heimsfaraldur hefur haft í för með sér? Ég held að það sé óhætt að segja að allir séu orðnir hundleiðir á aðstæðum en taki þessu með jafnaðargeði og geri sitt besta. Við erum heppin að búa í dreifbýli og geta notið útivistar í fallegri náttúru. Ég hef hins vegar töluverðar áhyggjur af þeim sem búa einir og er hætt við að einangrist enn frekar þegar samkomur og samvera er takmörkuð.

Hvað hefur þér fundist erfiðast við faraldurinn ? Erfiðast er að vita af þeim sem eru einir. Jákvætt hvað fólk er fljótt að tileinka sér nýjar venjur og flestir sýna öðrum mikla tillitssemi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir