Það sem skiptir máli

Ég ætla að fara hér yfir nokkur mál sem ég legg áherslu á og finnst virkilega skipta máli svo sveitarfélagið geti haldið áfram að vaxa og verði samkeppnishæft við önnur sveitarfélög um búsetu fólks og framþróun.

Það er undirstaða velsældar að sveitarfélagið hafi fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf með öflugum fyrirtækjum og stofnunum. Við höfum hér öflug fyrirtæki sem hafa skapað hér mörg atvinnutækifæri og er atvinnuleysi hér í algjöru lágmarki. En betur má ef duga skal og þurfum við að vera algjörlega á tánum við að laða hér að fyrirtæki og stofnanir og skapa fyrirtækjunum hér þannig umhverfi að þau geti vaxið hér og dafnað um ókomin ár. Tækifærin eru víða eins og til dæmis í ferðaþjónustu, textíl, landbúnaði, matvælaframleiðslu svo áfram mætti telja. Við ætlum ekki að sofa á þessari vakt.

Skólamál eru hverju samfélagi mjög mikilvæg og er eitt það fyrsta sem horft er til þegar taka á ákvörðun um að setjast að með fjölskyldu sína á nýjum stað. Miklar áskoranir eru framundan í nýju sveitarfélagi við að sameina leik- og grunnskólana. Við leggjum mikla áherslu á að vandað verði mjög til allra verka við sameininguna með sérstaka áherslu á að nemendur og starfsfólk megi vel við una þannig skólarnir okkar verði áfram í fremstu röð.

Með sameiningu á skólunum á einn stað er gert ráð fyrir töluverðri rekstrarhagræðingu og ætlum við að láta barnafólk í sveitarfélaginu njóta góðs af því með lækkun á leikskólagjöldum.

Þetta yrði gríðarleg kjarabót fyrir margar fjölskyldur og til þess að þetta verði að veruleika þurfa Sjálfstæðismenn og óháðir þinn stuðning á kjördag. Mín skoðun er sú að þetta sé bara byrjunin og að þróunin verði á þann veg að leikskóli verði gjaldfrír innan nokkurra ára.

Í vaxandi sveitarfélagi þarf að huga að framtíðar uppbyggingu og móta stefnu í skipulagsmálum til framtíðar. Það þurfa að vera til byggingalóðir fyrir íbúðarhúsnæði ásamt lóðum fyrir iðnaðarhúsnæði og atvinnuuppbyggingu ýmiskonar á Blönduósi, Húnavöllum og víðar. Í því samhengi má geta þess að tillaga að deiliskipulagi fyrir allt að 50 íbúðir í nýju íbúðarhverfi á Blönduósi, Fjallabraut og Lækjarbraut var staðfest af sveitarstjórn í vikunni. Hluti af innviðauppbyggingu sveitarfélagsins eru skipulagsmál og nauðsynlegt að huga vel að þeim. Munu þeir fjármunir sem varið er í það án efa skila sér margfalt til baka á komandi árum.

Ágætu íbúar!

Á laugardaginn göngum við til kosninga í sameinuðu sveitarfélagi Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar. Sjálfstæðismenn og óháðir hafa innan sinna raða framsýnt, duglegt og reynslumikið fólk í bland við nýja og kröftuga einstaklinga. Þau eru meira en tilbúin að leggja sig öll fram við áframhaldandi uppbyggingu svæðisins svo að það megi vaxa og dafna sem best í framtíðinni.

Ég hvet ykkur kjósendur góðir til að setja X við D á kjördag.

Með kveðju,

Zophonías Ari Lárusson
skipar 3. sæti lista sjálfstæðismanna og óháðra
í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir