„Það voru sumir orðnir vel skelkaðir“

Vindurinn, hálkan og blindan settu allt í hnút á Vatnsskarði. SKJÁSKOT AF RÚV
Vindurinn, hálkan og blindan settu allt í hnút á Vatnsskarði. SKJÁSKOT AF RÚV

Enn er víða erfið færð og lítið ferðaveður á Norðurlandi en þegar þessi frétt er skrifuð er þó hægt að komast úr Skagafirði og suður ef notast er við Vatnsskarð og Holtavörðurheiði. Vonskuveður var á Vatnsskarði í gærdag og var haft eftir Þorgils Magnússyni hjá Björgunarfélaginu Blöndu í fréttum Sjónvarps að aðstæður á Vatnsskarði hafi verið erfiðar; fljúgandi hálka og stórhríð og fólk hreinlega hrætt.

Í sumum tilfellum treystu ökumenn sér ekki til að aka bílum sínum við þessar aðstæður og þurftu björgunarsveitamenn beggja vegna Vatnsskarðs að grípa inn í aðstæður. Hátt í 200 bilar og fjöldi fólks voru ferjaðir niður af heiðinni vestanmegin en Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð hjálpaði einnig ferðalöngum niður í Skagafjörð. „Það voru sumir orðnir vel skelkaðir og við keyrðum suma bílana niður því sumir snérust bara út af vindi og hálku,“ sagði Þorgils en meðal þeirra sem voru stopp voru erlendir ferðamenn sem höfðu aldrei upplifað annað eins. Það var lán í ólani að bílar sátu ekki fastir í snjó, það var vindurinn, hálkan og blindan sem setti allt í hnút.

Nú um hádegi á annan í páskum er Öxnadalsheiðin ófær og sem og Þverárfjall og Laxárdalsheiði vestari. Þæfingur er á Siglufjarðarvegi og unnið að mokstri en vegurinn fyrir Vatnsnes er ófær. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum vegum á Norðurlandi vestra en víðast hvar er skafrenningur. Greiðfært er í Blönduhlíðinni.

Veðurstofan gerir ráð fyrir að vindur gangi hægt niður og vindur jafnan 10-12 m/sek en lægir á þriðjudagsmorgun. Spáð er lítils háttar snjókomu á víð og dreif á Norðurlandi vestra í kvöld. Það er því vissara að fylgjast vel með færðinni ætli fólk að setja undir sig faraldsfótinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir