„Þegar áföll dynja yfir stöndum við saman í þessu landi“

Rúv.is hefur eftir Magnúsi Magnússyni, sóknarpresti í Húnavatnsprestakalli sem stýrði upplýsingafundi lögreglunnar fyrir íbúa á Blönduósi í gærkvöldi, að fjölmennt hafi verið í félagsheimilinu á Blönduósi, nánast fullsetið og mikil eining og samhugur. Fánar voru víða dregnir í hálfa stöng í bænum í gær og augljóslega mikil sorg í samfélaginu.

Í fréttinni segir að flestir sem sóttu upplýsingafundinn sóttu kyrrðarstund í kirkjunni á Blönduósi í framhaldi. „Þar leiddi ég stutta bænastund í upphafi og svo hafði fólk tækifæri til að kveikja á kertum. Fólk var einfaldlega að sýna hvort öðru styrk og stuðning sem nauðsynlegt er á tímum sem þessum,“ segir Magnús í samtali við Rúv.

Fjölmargar samúðarkveðjur hafa borist samfélaginu í Húnabyggð, meðal annars frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, en þar segir: „Á þessari sorgarstundu hugsum við Íslendingar til ykkar á Blönduósi og í Húnabyggð allri. Íbúar sveitarfélagsins eiga skilið stuðning og samúð. Þegar áföll dynja yfir stöndum við saman í þessu landi. - Ég færi ykkur í forystusveit Húnabyggðar hlýjar kveðjur. Ég við þig líka að koma á framfæri þökkum mínum til allra þeirra sem sinnt hafa löggæslu, hjúkrun og áfallahjálp eftir hinn voðalega atburð.“ Bréfið er stílað á Guðmund Hauk Jakobsson, forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar.

Þeir eru margir sem sækja styrk í trúna eða hafa þörf fyrir að koma saman í kirkjunni á stundum sem þessum. Blönduóskirkja er opin og þangað er öllum frjálst að koma, tendra kerti eða eiga kyrrðarstund. Nánari upplýsingar varðand sálgæsluviðtöl má finna á FB-síðu Blönduóskirkju. Nú milli 16 og 18 eru meðlimir úr áfallateymi Rauða krossins með viðveru í kirkjunni og verða daglega út vikuna.

Fólki í nágrannasveitarfélögum er brugðið og má nefna að fólk getur sótt kyrrðarstund í Hólaneskirkju á Skagaströnd kl. 20 í kvöld og bænastund verður í Hvammstangakirkju á sama tíma..

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir