Þemadagar og opið hús

Þemadagar hafa verið í gangi hjá nemendum Árskóla á Sauðárkróki þessa vikuna sem að þessu sinni eru tileinkaðir heilsu og umhverfi. Ýmislegt hefur verið gert sér til skemmtunar og fróðleiks og meðal annars fóru yngstu nemendurnir í fjöruna og tóku með sér hluti sem fjaran geymir. Veðrið var með albesta móti og stemningin fín hjá hópnum sem kom við hjá Feyki á bakaleiðinni í skólann.
Á morgun verður Árskóladagurinn haldinn hátíðlegur en þá verður opið hús í skólanum, frá kl. 10:00-13:00. Kaffihús verður opið þar sem nemendur selja kaffi, djús og meðlæti sem þeir hafa bakað. Einnig verður markaður með ýmsum vörum sem nemendur hafa búið til.
Allur ágóði rennur til góðgerðamála í nærumhverfinu en gestir eru beðnir að athuga að ekki er posi á staðnum.
Myndir frá þemadögum er hægt að nálgast á Facebooksíðu Árskóla.