Theodórsstofa á Sögusetri íslenska hestsins

Theodór Arnbjörnsson. Mynd frá Sögusetri íslenska hestsins.
Theodór Arnbjörnsson. Mynd frá Sögusetri íslenska hestsins.

Saga skipulegs hrossaræktarstarfs á Íslandi er ótrúlega stutt. Þannig var fyrsti ráðunauturinn í búfjárrækt sem hafði m.a. með hrossaræktina að gera, ekki ráðinn til Búnaðarfélags Íslands fyrr en 1902. Hann hét Guðjón Guðmundsson og beitti sér fyrir stofnun fyrsta hrossaræktarfélagsins árið 1904 og fyrstu hrossasýningunni á vegum BÍ árið 1906. Hann lést strax 1908. Næsti ráðunautur sem sinnti hrossaræktinni, Ingimundur Guðmundsson, hóf störf 1910 en lést af slysförum 1912.

Næsti ráðunautur þar á eftir sem hafði með hrossaræktina að gera, var Sigurður Sigurðsson en hann hafði einhvern lengsta starfsaldur hinna eldri ráðunauta og gekk iðulega undir kenninafninu; Sigurður ráðunautur. Theodór Arnbjörnsson tók svo við sauðfjár- og hrossaræktinni af honum árið 1920. Theodór sinnti svo einvörðungu hrossaræktinni frá 1927 og var fyrsti ráðunauturinn sem hafði hrossaræktina sem aðalstarf en hafði þó að auki umsýslu með fóðurbirgðafélögunum og var féhirðir BÍ frá 1934. Theodór lést 1939 á 51. aldursári.

Theodór markaði djúp spor í hrossaræktinni með stefnu sinni og starfi. Hann hóf færslu ættbókar BÍ fyrir undaneldishross árið 1923. Fyrst fyrir stóðhesta og svo einnig fyrir hryssur. Theódór var að auki afar ritfær maður og eftir hann liggja nokkrar bækur. Hestar kom út hjá BÍ árið 1931 og endurútgefinn offsetprentuð árið 1975. Járningar kom út hjá sama útgefanda árið 1938 og endurútgefinn offsetprentuð árið 1970. Einnig birtust margar greinar eftir Theodór í Búnaðarritinu, Búnaðarblaðinu Frey og víðar. Hestar er afskaplega vandað rit, raunar eitt af öndvegisritum þeim er um hesta hefur verið skráð á Íslandi og heldur enn gildi sínu, þótt löngu sé tímabært að tekið yrði saman nýtt rit í líkum anda. Að Theodóri látnum kom svo út bókin Sagnaþættir úr Húnaþingi. Ísafoldarprentsmiðja í Reykjavík gaf hana út árið 1941, með formála Arnórs Sigurjónssonar. Í þessu kveri sem er listilega skrifað, er mikinn fróðleik að finna, m.a. um Þingeyrarfeðga: Ásgeir Einarsson stórbónda og þingmann og mikinn fylgismann Jóns forseta og son hans, hestamanninnn mikla Jón Ásgeirsson. Það sem m.a. er greint frá tilurð vísunnar kunnu eftir Jón;

Það er mas úr þér, vinur.
Þetta: „Léttir dettur“.
Aldrei rasar reiðskjótur
rétt á sprettinn settur.

Einnig er í kveri þessu að finna frásöguþátt um Katadalsfólkið en þaðan er Friðrik, „sá er drap Natan Ketilsson“ eins og Theodór kemst að orði. Um atburði þá hefur mikið verið ritað, t.d. frásöguþátturinn Friðþæing eftir Tómas Guðmundsson skáld í bókinni Horfin tíð frá 1967 úr ritröð þeirra Tómasar og Sverris Kristjánssonar sagnfræðings; Íslenzkir örlagaþættir. Þess er og skemmst að minnast að réttarhöldin sjálf voru endurtekin nú sl. sumar og þá í anda nútíma réttarfars og eftir gildandi landslögum dagsins í dag.

Sögusetur íslenska hestsins fékk, fyrir nokkrum árum, höfðinglega gjöf frá fósturdóttur þeirra hjóna, Theodórs og Ingibjörgu Jakobsdóttur, Kolfinnu Gerði Pálsdóttur sem voru skrifstofuhúsgögn og ýmislegir munir Theodórs. Í því tilefni var efnt til málþings þann 20. apríl 2007, sjá á vef SÍH; sogusetur.is, undir stikunni Fræðsla. Þar er m.a. að finna yfirlitserindi um ævi og störf Theodórs sem undirritaður tók saman og flutti á málþinginu og er áhugasömum lesendum bent á það um nánari fróðleik. Mununum hefur svo verið fundinn staður á neðri hæð húsnæðis Sögusetursins heima á Hólum og kallast sá staður Theodórsstofa, jafnframt sem gefinn var út bæklingur með sama nafni sem liggur frami fyrir gesti setursins.

Kristinn Hugason

Áður birst í 6. tbl. Feykis  2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir