Þjóðstjórn ?!
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er því slegið upp að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi viðrað þá hugmynd að vegna ástandsins í efnahagsmálum hafi aldrei verið meiri ástæða til þess en nú að koma saman þjóðstjórn. Þetta er um margt athyglisvert og margar spurningar vakna.
Svona útspil frá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra eru bein afskipti af pólitíkinni, sem er allt í góðu lagi, nema fyrir það að hann er nú seðlabankastjóri sem ætti að hafa um nóg að hugsa á þeim vettvangi þessa dagana. Þessar hugmyndir hans má túlka þannig að hann hafi vantraust á sitjandi ríkisstjórn. Þannig hafi núverandi ríkisstjórn ekki þá burði sem þarf til að takast á við krefjandi verkefni. Ríkisstjórnin styðst við óvenju stóran þingmeirihluta í þinginu og því er styrkur hennar á Alþingi mjög mikill. Það er því ekki ástæða til þess að mynda þjóðstjórn þess vegna.
Hitt er augljóst að seðlabankastjóri hefur ekki mikið álit á Samfylkingunni, það hefur reyndar lengi legið fyrir. Þetta útspil um þjóðstjórn beinist því að henni. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að seðlabankastjóri vildi ekki hafa ráðherra Samfylkingar með í ráðum um síðustu helgi í Glitnismálinu. Það var sérstaklega eftir því tekið að viðskiptaráðherra var hvergi nálægur við vinnslu málsins. Það er augljóst að það var vegna náinna fjölskyldutengsla viðskiptaráðherra við Sigurð G Guðjónsson samstarfsmann Jóns Ásgeirs. Seðlabankastjóri vildi greinilega ekki eiga á hættu að Baugs-menn fengju upplýsingar um framvindu mála aðfararnótt mánudagsins.
Það er ekki augljóst hvað seðlabankastjóri vill fá annað út úr þjóðstjórn en að sprengja ríkisstjórnina og minnka áhrif og völd Samfylkingarinnar. Það er út af fyrir sig gott, út frá sjónarhóli okkar í stjórnarandstöðunni.
Margir spyrja sig að því hvort Davíð vilji sjálfur veita þjóðstjórn forystu og koma þannig aftur inn á svið stjórnmálanna. Sumir halda því fram að hann vilji það gjarnan, rök fyrir því er þátttaka hans í pólitískri umræðu að undanförnu og öll aðkoma hans að Glitnismálinu. Þetta eru vangaveltur sem ég hef heyrt í dag.
Hugmyndir seðlabankastjóra um þjóðstjórn fela í sér vantraust á að núverandi ríkisstjórn, það er megin niðurstaðan. Það er athyglisvert og hlýtur að valda bæði sjálfstæðismönnum og Samfylkingunni hugarangri. Þetta vantraust felur það í sér að seðlabankastjóri telur ríkisstjórnina ekki færa um að halda utan um stjórn efnahagsmála. Þar er hann sammála okkur í Framsóknarflokknum.
Ég tel að sú umræða sem mun fara fram í framhaldinu muni veikja grundvöll ríkisstjórnarinnar. Ég er viss um að margir sjálfstæðismenn sem eru og hafa verið mjög ósáttir við samstarf Sjálfstæðisflokksins við Samfylkinguna taka undir með seðlabankastjóra. Þannig mun ólgan sem verið hefur í Sjálfstæðisflokknum vegna stjórnarsamstarfsins aukast og þannig veikist staða Sjálfstæðisflokksins innan frá. Það er einfaldlega þannig að Davíð Oddsson er ennþá hinn raunverulegi leiðtogi margra sjálfstæðirmanna, sú staðreynd er ein mesta ógnin við tilveru núverandi ríkisstjórnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.