Þjóðverjar fjölmennastir gesta Söguseturs íslenska hestsins

Sumaropnun Söguseturs íslenska hestsins þetta árið lauk 31. ágúst. Gestir voru alls 1177, þar af 153 börn svo alls greiddu 1024 aðgangseyri, sem er nokkur fjölgun frá fyrra ári. Á heimasíðu setursins segir að athyglisvert sé hversu víða að gestir setursins í sumar komu, eða frá 29 þjóðlöndum auk Íslands. Rétt eins og fyrri ár eru þýskir gestir í sérflokki hvað fjölda varðar, en þeir voru 392, eða rétt rúm 38%. Íslendingar voru í öðru sæti með 138 gesti og Bandaríkjamenn í því þriðja með 69 gesti. Næstir komu svo Hollendingar (61 gestur), Svisslendingar (60 gestir) og Svíar (54 gestir).

Sögusetur íslenska hestsins stóð fyrir sýningunni Íslenski hesturinn á fullveldisöld á Landsmóti hestamanna, sem fram fór á félagssvæði Hestamannfélagsins Fáks í Reykjavík, dagana 1. til 8. júlí. Sýningin mun fljótlega verða aðgengileg á heimasíðu setursins, auk þess sem hún verður sett upp í Skagafirði. Á heimasíðu Sögusetursins kemur fram að nú í haust og á næsta ári liggi ýmislegt fleira fyrir er varðar áframhaldandi uppbyggingar- og rannsóknastarf hjá Sögusetri íslenska hestsins, sem nánar mun kynnt er þar að kemur.

Fleiri fréttir