Þjófar á ferð á Blönduósi

Brotist var inn í verslun Kjalfells á Blönduósi í nótt og þaðan stolið um tug fartölva, að verðmæti um 1,5 milljón króna. Kristján Blöndal, eigandi Kjalfells, segir greinilegt að þjófurinn eða þjófarnir hafi verið búnir að kanna aðstæður áður en þeir létu til skara skríða.

Mbl.is birtir upptöku úr öryggismyndavélum og sést þar hvernig þjófur forðast sjónsvið tveggja myndavéla og snýr þeim upp í loft áður en hann og hugsanlegir vitorðsmenn, láta greipar sópa. Einnig var brotist inn í Samkaup á Blönduósi en ekki liggur fyrir hverju var stolið þar. Kjalfell er tryggt fyrir tjóninu en Kristján segir við Mbl.is það sárast að viðskiptavinir sem höfðu komið með tölvur í viðgerð sjái nú á eftir mikilvægum gögnum sem í þeim voru.

Innbrotið var framið klukkan tíu mínútur yfir eitt í nótt. Hafi einhver séð til mannaferða í grennd við Kjalfell á þessum tíma er sá hinn sami beðinn um að koma upplýsingum til lögreglunnar á Blönduósi sem  rannsakar nú málið.

Sjá frétt Mbl.is

Fleiri fréttir