Þjónustunámskeið frítt fyrir aðila að Félagi ferðaþjónustuaðila í Skagafirði

Farskólinn og Félag ferðaþjónustuaðila í Skagafirði ætla þann 6. júní að halda námskeið fyrir starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu. Kennd verður tíu kennslustunda námskrá sem sérstaklega var samin fyrir þjónustufyrirtæki  og ber heitið „Við erum hér fyrir þig“.

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem á einhvern máta starfa við að þjónusta ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, sem sækja Skagafjörð heim.

Aðaláherslan verður á Þjónustuhugtakið og verður það rætt út frá mörgum hliðum og ýmsum spurningum varpað fram.

Sérstök áhersla verður lögð á erfiðar aðstæður sem starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja lenda í og það hvort allir eigi rétt á góðri þjónustu? Líka þeir sem eru fullkomlega óþolandi?

Einnig verður farið í mikilvægi  snyrtimennsku, persónulegt hreinlæti, klæðnað, framkomu og fas.

Þá verður lögð áhersla á að kynna nærumhverfi fyrir þátttakendum. Hvað er í boði á svæðinu, hvað er það helst sem ferðafólk spyr um og hvernig getum við aðstoðað það við að fá svör við þeim spurningum.

Námskeiðið hefst kl. 9 í húsnæði Farskólans við Faxatorg og stendur til kl. 16. Innifalinn er hádegisverður og kaffi.

Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Lára Óskarsdóttir. Lára er ACC stjórnendamarkþjálfi, starfandi hjá Vendum.  Hún starfaði sem Dale Carnegieþjálfari til ársloka 2012. Hún þýddi bókina Meira sjálfstraust eftir Paul McGee, 2010. Lára hefur mikla reynslu af þjálfun og námskeiðahaldi bæði í þjónustu og sölu. Hún lauk B.Ed. próf frá HÍ 2008. Auk diplomanámi í mannauðsstjórnun frá EHÍ, hefur Lára lokið námi í stjórnendamarkþjálfun (e. Executive coaching)  frá Opna Háskólanum í HR og Coach University og hefur ACC vottun frá International Coach Federation.

Bent er á að Félag Ferðaþjónustuaðila í Skagafirði kostar námskeiðið og er það því aðilum innan félagsins að kostnaðarlausu.

Skráning er í síma 455-6010 eða með því að senda póst á gigja@farskolinn.is, þar sem fram kemur kennitala, netfang og stéttarfélag.

Fleiri fréttir