Þóranna Ósk með nýtt skagfirskt hérðasmet í hástökki
52. Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands var haldin þann 28. júlí síðastliðinn í Borgarnesi. Sagt er frá þessu á Facebooksíðu UMSS. Bikarkeppnin er liðakeppni og lentu strákarnir hjá UMSS í 3. sæti.
Jóhann Björn Sigurbjörnsson sigraði 100 metra spretthlaupið og lenti í 2. sæti í 400 metra hlaupi. Ísak Óli Traustason sigraði 110 metra grindarhlaupi og lenti í 4. sæti í langstökki. Sveinbjörn Óli Svavarsson lenti í 5. sæti í stangarstökki, með stökk upp á 3,50 metra sem er persónulegt met. Rúnar Ingi Stefánsson lenti í 5. sæti í kúluvarpi með 11,13 metra kast sem er persónulegt met . Rúnar lenti einnig í 5. sæti í sleggjukasti. Guðmundur Smári Guðmundsson lenti í 5. sæti í 1500 metra hlaupi. Strákarnir luku svo keppni með því að lenda í 3. sæti í 1.000 metra boðhlaupi (Guðmundur Smári, Ísak Óli, Jóhann Björn og Sveinbjörn Óli).
Stelpusveit UMSS náði ekki fullskipuðu liði en þær kepptu í sínum keppnisgreinum. Aníta Ýr Atladóttir keppti í kringlukasti og kastaði 25,63 metra. Birta Sylvía Ómarsdóttir keppti í 400 metra hlaupi og hljóp á 75,00 sekúndum. Stefanía Hermansdóttir keppti í spjótkasti og kastaði 28,51 metra. Stelpurnar stóðu sig allar frábærlega og settu allar persónulegt met í sínum greinum.
Í síðustu grein mótsins sigraði Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir hástökk kvenna á nýju skagfirsku héraðsmeti með stökki upp á 1,77 metra. Þóranna Ósk er á leið til Svíþjóðar þar sem hún keppir fyrir hönd Íslands á NM/Baltic U23, mót norrænu landanna og Eystrasaltslandanna í flokkum pilta og stúlkna 20-22 ára, sem fram fer í Gävle 11.-12. ágúst. Þóranna keppir þann 11. ágúst. Sigurður Arnar Björnsson, þjálfari Frjálsíþróttadeildar Tindastóls, verður í þjálfarateymi liðsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.