Þórarinn Eymundsson kynbótaknapi ársins og knapi ársins í Skagafirði
Uppskeruhátíð Hrossaræktarsambands Skagafjarðar og hestaíþróttaráð var haldin um sl. helgi. Þar var Þórarinn Eymundsson valinn knapi ársins í Skagafirði og jafnframt kynbótaknapi ársins. Gísli Gíslason var kjörin gæðingaknapi árins og Mette Mannseth íþróttaknapi.
Í yngri flokkunum voru þær Stefanía Sigfúsdóttir (barnaflokki), Þórdís Inga Pálsdóttir (unglingaflokki) og Sonja Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir (ungmennaflokki) valdar knapar ársins.
Hólaskóli hlaut Ófeigsbikarinn fyrir ræktunarbú ársins. Hrannar frá Flugumýri 2 hlaut Sörlabikarinn er hann er gefin hæst dæmda kynbótahrossinu.
Einnig var efstu hrossum í hverjum flokki veitt viðurkenning en Þoka frá Hólum átti efstu hrossin í þremur flokkum, 4 vetra hryssum, 5 vetra stóðhestum og 6 vetra hryssum.
Hvatning í að halda áfram og gera enn betur
Þórarinn Eymundsson segir það mikla viðurkenningu að vera valinn knapi ársins og hvatningu í því að halda áfram og gera enn betur. „Skagfirðingar eiga marga knapa í fremstu röð sem stóðu sig vel á stórmótum í sumar. Einnig í yngri flokkum eigum við Skagfirðingar Íslands-, landsmóts- og Norðurlandameistara þannig að framtíðin er björt,“ sagði Þórarinn í samtali við Feyki.
Aðspurður um hvað sé framundan svarar hann að nú sé að nudda áfram í vinnunni, tamningum, reiðkennslu við Hólaskóla og reiðnámskeiðum erlendis. „Keppnishestarnir eru að koma inn í hús þessa dagana og þá þarf að þjálfa vel og reglulega til að árangur náist. Ég hef verið heppinn með gott starfsfólk sem aðstoðar við þjálfun og umhirðu hrossanna og það er einn af lykilþáttum á bak við gott gengi,“ sagði Þórarinn.
Loks bætti hann við að þó svo að góður árangur í keppni sé gefandi sé samt alltaf skemmtilegast að ríða út með stelpunum sínum og að kenna þeim að njóta hestsins og náttúrunnar.