Þráinn Freyr og kokkalandsliðið í 5. sæti á heimsmeistaramótinu
Íslenska kokkalandsliðið, með Skagfirðingnum Þráni Frey Vigfússyni sem fyrirliða, náði 5. sætinu á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg en samkvæmt vefnum Freisting.is er þetta besti árangur Íslands hingað til.
Það var Singapúr sem hreppti fyrsta sætið, Svíþjóð hafnaði í öðru sæti og Bandaríkin í því þriðja.
Kokkalandslið Íslands hlaut gullverðlaun í báðum greinunum sem það keppti í heimsmeistarakeppninni. Gullverðlaun fyrir þriggja rétta heita máltíð en þar sem Þráinn Freyr, ásamt fimm öðrum, eldaði þriggja rétta máltíð fyrir dómara og 110 gesti. Og einnig gullverðlaun fyrir kalda borðið sitt þar sem innblásturinn var sóttur í Ísland, land elda og íss, hreina náttúru, rekaviðinn úr sjónum, hraunið, hrafntinnuna og stuðlabergið.
Í kokkalandsliðinu eru: Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri liðsins, Garra, Þráinn Freyr Vigfússon fyrirliði, Lava Bláa lóninu, Viktor Örn Andrésson liðsstjóri, Lava Bláa lóninu, Fannar Vernharðsson VOX, Bjarni Siguróli Jakobsson Slippbarnum, Ylfa Helgadóttir Kopar, Hafsteinn Ólafsson Apótekinu, Axel Clausen Fiskmarkaðnum, Garðar Kári Garðarsson Strikinu, Daníel Cochran Kolabrautinni, Ari Þór Gunnarsson Fiskfélaginu, Hrafnkell Sigríðarson Bunk Bar og María Shramko sykurskreytingameistari.