Þreksport á nýjum stað

Friðrik Hreinn Hreinsson og Guðrún Helga Tryggvadóttir fyrir framan Þreksport að Borgarflöt 1. Mynd: PF.
Friðrik Hreinn Hreinsson og Guðrún Helga Tryggvadóttir fyrir framan Þreksport að Borgarflöt 1. Mynd: PF.

 Það hefur mikið gengið á undanfarið hjá þeim Friðriki Hreinssyni og Guðrúnu Helgu Tryggvadóttur, eigendum Þreksport á Sauðárkróki, en búið er að færa starfsemi líkamsræktarstöðvarinnar í nýtt húsnæði að Borgarflöt 1. Segja þau að framkvæmdir og flutningur hafi gengið vel og vel ætti að fara um gesti í nýja húsnæðinu.

„Þetta hefur gengið vel, erum ennþá að koma okkur fyrir, en náðum alla vega að opna í apríl eins og stefnt var að. Það tekur tíma að koma þessu almennilega á kjölinn,“ sagði Friðrik er Feykir náði loksins að smella mynd af þeim hjónum saman. Svo mikið hefur verið að gera hjá þeim að myndatakan dróst á langinn.

Friðrik segir að nýja húsnæðið sé betra að mörgu leyti enda stærra og rýmra fyrir gesti. „Það er stærri hóptímasalur svo við getum tekið við fleirum. Það var svo þröngt hinum megin en salurinn hér er helmingi stærri. Við getum tvöfaldað í tímana sem er mikill kostur,“ segir Friðrik.

Í húsinu verður auk starfsemi Þreksports, sjúkraþjálfun, fótsnyrtistofa og snyrtistofa. Þá er hægt að komast í ljósabekk. Friðrik segir að húsið opni fyrir 6 á morgnana og fólk geti stundað sína líkamsrækt til 10 á kvöldin. Afgreiðslutíminn er til klukkan 18 en eftir það kemst fólk inn með rafrænu aðgangskerfi svo nú er engin afsökun fyrir því að komast ekki í ræktina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir