Þremur sagt upp í Arion banka á Sauðárkróki

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar, ásamt sveitarstjóra, átti fund með stjórnendum Arion banka fyrir helgi þar sem rædd voru málefni bankans sem snúa að uppsögnum starfsfólks í útibúi þess á Sauðárkróki og áætlunum um lokun hraðbanka á Hofsósi. Eins og fram hefur komið í fréttum var ákveðið að hætta við lokun bankans en uppsagnir starfsfólks stendur.

„Við áttum ágætan fund og umræður um starfsemi Arion banka í Skagafirði, þar sem við lýstum áhyggjum og vonbrigðum yfir þeim uppsögnum sem voru um síðustu mánaðarmót í útibúi bankans á Sauðárkróki. Einnig vonbrigðum  yfir fyrirhugaðri lokun hraðbankans á Hofsósi, þrátt fyrir daprar fréttir af uppsögnum þá fengum við þær  ánægjulegar fréttir að hætt væri við lokun á hraðbankanum á Hofsósi sem er mikill léttir,“ sagði Gísli Sigurðsson, varaformaður byggðarráðs eftir fundinn.

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka sagði í samtali við Feyki ástæðu uppsagnanna fyrst og fremst vera hagræðingu í starfseminni í ljósi þess að miðað við það svæði sem útibúið þjóni þá var fleira starfsfólk en í öðrum sambærilegum útibúum bankans, eins og t.d. á Egilsstöðum. „Staðreyndin er sú að fjármálaþjónusta er að breytast í takt við breytta eftirspurn viðskiptavina og aukna notkun stafrænna þjónustuleiða. Stafrænar þjónustuleiðir, eins og netbanki og appið, hafa kannski ekki síst gagnast landsbyggðinni og dreifðari byggðum. Þessu fylgir jafnframt að störf í fjármálaþjónustu breytast.“ Hann segir ekki liggja fyrir neinar frekari ákvarðanir um uppsagnir á svæðinu eða lokun hraðbanka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir