Þrettán atriði á Söngkeppni NFNV

Söngkeppni NFNV verður haldin á morgun, föstudaginn 15. febrúar í sal Fjölbrautaskólans en keppnin er árlegur viðburður og síðustu ár haldin á vorönn. „Keppnin gefur nemendum skólans tækifæri á að sýna hvað í þeim býr hvað varðar tónlist og söng“ segir Dagmar Ólína, skemmtanastjóri NFNV.

„Við í nemendafélaginu reynum að fá sem flesta til að taka þátt, það skiptir engu máli hvort krakkarnir hafa reynslu í að koma fram eða syngja, aðalmálið er bara að taka þátt og hafa gaman af. Á hverju ári er mikill metnaður lagður í keppnina sem hefur ávallt skilað af sér frábærri og flottri skemmtun, og verður keppnin í ár alls ekki af síðri kantinum,“ segir Dagmar en alls verða þrettán atriði á dagskrá.

„Síðustu vikur hafa þátttakendur verið í stífum æfingum með hljómsveit kvöldsins, sem nemendur úr skólanum skipa. Á bassa leikur Sæþór Már, trommur Jóhann Daði, Arnar Freyr á píanó og Magnús Björn á gítar. Veitt varða verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið og sá sem vinnur keppnina keppir fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna sem verður haldin seinna í vor. Við mælum eindregið með að allir mæti, fullorðnir og börn á keppnina því þetta er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Við hvetjum alla til að mæta.“

Aðgangseyrir er 2000 kr. og 1500 kr. fyrir meðlimi FNV og grunnskólanemendur en frítt er inn fyrir 10 ára og yngri. Húsið opnar kl. 19:30 og keppnin byrjar 20:00. Ferðastúdentar verða með sjoppu skólans opna, þar sem ýmislegt gotterí verður í boði.

Fleiri fréttir