Þrjú verkefni valin til frekari þróunar
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga og Sveitarfélagið Skagafjörð, efndi á dögunum til samkeppni um góðar viðskiptahugmyndir undir yfirskriftinni Ræsing í Skagafirði. Einstaklingum, hópum og fyrirtækjum var boðið að senda inn hugmyndir og sækja um þátttöku í verkefninu. Alls bárust 24 umsóknir og verkefnin voru bæði fjölbreytt og spennandi.
Samkvæmt fréttatilkynningu hefur verkefnisstjórn nú valið þrjú verkefni til frekari þróunar. Unnin verður viðskiptaáætlun og þátttakendur fá aðstoð við gerð fjárfestakynninga sem haldnar verða í lok verkefnisins. Verkefnin verða kynnt í Verinu Vísindagörðum klukkan 16:00 föstudaginn 12. september og í framhaldinu verða undirritaðir samstarfssamningar.
„Þátttakendur fá 12 vikur til að vinna viðskiptaáætlun og fá á þeim á tíma stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Verkefnisstjórn hefur tvær milljónir til að styðja við framgang verkefnanna en verðlaun fyrir bestu viðskiptaáætlunina getur numið allt að einni milljón króna,“ segir loks í tilkynningu.