Þurfum frið til þess að takast á við þetta áfall, segir í yfirlýsingu barna hjónanna sem urðu fyrir skotárás á Blönduósi

Mynd af Pexels.com
Mynd af Pexels.com

Börn hjónanna sem urðu fyrir skotárás á Blönduósi á sunnudaginn hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau biðja fjölmiðla um að virða friðhelgi einkalífs þeirra. Saka þau fjölmiðla um að flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs þeirra með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í þau, nánustu vini og ættingja.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Á sunnudaginn breyttist líf okkar til frambúðar og verður aldrei aftur eins. Við syrgjum móður okkar og faðir okkar er alvarlega særður á spítala. Okkur hafa borist hlýjar kveðjur og stuðningur úr öllum landshornum. Fyrir það erum við þakklát.

Það er erfiðara en orð fá lýst að ganga í gegnum það sem við erum að upplifa núna. Það er enn þyngra þegar fjölmiðlar flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs okkar með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í okkur, nánustu vini og ættingja.

Þess vegna viljum við góðfúslega biðja fjölmiðla um að virða friðhelgi einkalífs okkar, fjölskyldu og heimilis. Við þurfum frið til þess að takast á við þetta áfall, til að syrgja móður okkar og hlúa að föður okkar. Því í dag er ekkert mikilvægara en að hann nái heilsu á ný.

Allt sem við höfum að segja kemur fram hér að ofan. Við munum ekki tjá okkar frekar. Við ítrekum að við biðjum fjölmiðla að virða það.

Sandra, Hilmar, Pétur og Karen.

Konan sem lést hét Eva Hrund Pétursdóttir en eiginmaður hennar, Kári Kárason, liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi og er líðan hans eftir atvikum og ljóst að áverkar hans eru alvarlegir. Árásarmaðurinn, Brynjar Þór Guðmundsson, lést á vettvangi árásarinnar en á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að til rannsóknar sé meðal annars hvernig andlát hans bar að en talið sé víst að réttarkrufning muni leiða dánarorsök í ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir