Þuríður í Delhí - Mánudagurinn fyrsti í Delhí
Ég ætlaði aldrei að sofan í gærkvöldi, mér var drullukalt á höndunum og nefinu og þrátt fyrir að hafa vafið teppinu góða úr Rúmfó, tvöföldu yfir efripartinn náði ég ekki í mig hita. Líklega hefur kalda sturtan átt sinn þátt í því. Ég sofnaði fyrir rest og vaknaði svo til að snúa mér um miðja nótt þá var mér orðið vel hlýtt. Svaf svo þungum svefni til morguns þangað til ókennilegt hljóð erti í mér hljóðhimnurnar, fattaði svo að herbergisfélaginn var að reyna að ná sambandi við mig. Hún sagðist vera búin að vaka í hálftíma og sæi enga ástæðu til að vaka lengur ein enda klukkan orðin hálfníu. Rétt í því var barið á dyr og inn kom indverji með tvær ókennilegar eggjahrærur á diski (við ákváðum að skippa þessum morgunmat hér eftir, enda með nóg af íslensku gúmmulaði með okkur) . Hér var hellt upp á kaffi og mauluð flatkaka með hangikjöti í morgunverð. Hjúkkurnar komu inn, mældu blóðþrýsting og gáfu mér stofnfrumusprautu og tilkynntu mér að sjúkraþjálfun byrjaði kl. 10:45. Við höfðum það náðugt fram að þeim tíma. Á ganginum hitti ég Lúkas og svo pabba hans Jeff sem bað vel að heilsa móður minni og manninum hennar. Gaman að hitta þá tvo enda höfum við verið samtíða hér í 3 skipti. Þeir eru að vísu að ljúka fjórðu meðferðinni núna en ég að hefja mína. Niðri hittum við Shivanni sem eins og áður verður sjúkraþjálfinn minn. Hún mældi mig og yfirfór, og vídeóaði æfingarnar mínar. Dr. Geeta kom þegar vel var liðið á tímann, Shivanni sagði henni að ég væri farin að geta skriðið ein og sjálf. Það fannst dr. Geetu mjög góðar fréttir, þetta væri merki um að ég væri virkilega búin að kveikja á fleiri vöðvatengingum og nú væri ekkert annað í stöðunni en að virkja þetta alltsaman enn frekar. Síðan sagði hún Shivanni að hún ætti að taka af mér spelkurnar og láta mig æfa mig í að læsa hnjánum og að standa án þess að hnén kiknuðu, svo snéri hún sér að mér og sagði að nú færi ég bara heim spelkulaus. Ég reyndi að malda í móinn, þetta gæti nú ekki gengið, ekki í þessari ferð, ég hefði enga vöðva virka í kringum hnén og það að hafa þá hlyti að vera grundvöllur fyrir því að ég gæti staðið án spelkna. Dr. Geeta sagði mér þá að vera jákvæð, hugsa jákvætt og reyna þetta. Það væri grundvöllur þess að þetta gæti orðið. Ég átti fá svör við þessu og jánkaði bara, auðvitað verður maður að vera jákvæður og kannski tekst mér þetta, alveg eins og þegar ég horfði á strákana skríða hér á fjórum fótum og fannst að þetta myndi ég aldrei geta, þá fannst mér nú að þetta myndi ég ekki geta. Nú hinsvegar get ég skriðið svo hvað er því til fyrirstöðu að ég geti læst hnjánum og stjórnað þeim að einhverju leiti, allavega. Við hittum einnig dr. Asish sem eins og áður var fullur af áhuga, vildi fá að vita um breytingar hjá mér og hvatti mig svo áfram. Seinna þegar við vorum komnar inn á herbergi komu þau bæði dr. Geeta og dr. Ashis hún tók hann með sér til að tala við mig um að vera jákvæð og tala í mig eldmóðinn. Eftir æfingar í dag settumst við út í 17 gráðu hitann og spjölluðum við aðra sem halda til hér núna. Lúkas og Jeff eru á heimleið eftir að hafa verið hér frá því fyrir jól og greinilegt á þeim félögum að þeir eru farnir að þrá ameríska nautasteik með öllu því Jeff talaði um fátt annað en mat. Við ákváðum að kíkja á Costa Café og þreytti sjúkraþjálfa sína aðra lífgöngu um götur Delhí með hjólastólinn og mig að sjálfsögðu. Costa café stóð undir væntingum eins og alltaf og eiginlega synd hvað er stutt þangað og auðvelt að verða sér úti um djúsí súkkulaðiköku. En ég kvíði engu með sjúkraþjálfu mér við hlið, ég treysti á að hún hafi vit fyrir mér og hleypi mér ekki í sætindin nema spari ;o). Á morgun á ég að mæta í sjúkraþjálfun kl. 10;30 og eftir hádegi kl. 14;15. Ég á að fara í æfingar upp á bekk fyrir hádegið og á spelkurnar. Eftir hádegið fer ég á boltann, eða stend við stafinn og svo á fjórar fætur á gólfdýnunni. Shivanni ætlar að breyta hjá mér æfingunum á boltanum því henni finnst ég vera tilbúin í nýjar núna. Ég vona bara að ég fái næga endurhæfingu samhliða stofnfrumunum eða allavega að ég þurfi ekki að eyða mörgum dögum í að jafna mig eftir stofnfrumusprautur í þessari ferð.
Annars er fátt eftir að segja frá, ég reyndar átti í basli með blöðruna í mér, hún var eitthvað viðkvæm eftir ferðalagið, það horfir allt til betri vegar núna, vona ég. Við versluðum okkur blöð á markaðsgötunni og sitjum hér í makindum og flettum þeim, ég er búin að fá aukateppi í rúmið þannig að ég á von á að sofna vært í kvöld. Sjúkraþjálfa er búin að draga fyrir og stendur nú á náttbrókunum og mundar tannþráðinn í gríð og erg. Næst á döfinni er að lesa smá fyrir svefninn. Aldeilis ljómandi afslöppuð og áreynslulítil dvöl enn sem komið er.