Til verndar hagsmunum manna og dýra

Sigursteinn Másson sjónvarpsfréttamaður, kvikmyndagerðarmaður, sjálfboðaliði hjá Geðhjálp og starfandi í verkefnum fyrir Alþjóða dýraverndunarsjóðinn mun halda fyrirlestur í Háskólanum á Hólum þriðjudaginn 11. nóvember kl. 16 í stofu ferðamáladeildar.

Í fyrirlestrinum er farið í máli og myndum yfir ýmis verkefni Alþjóða dýraverndunarsjóðsins (IFAW) vítt og breytt um heiminn s.s í Kína, Afríku og á Íslandi. Þótt verkefnin séu öll ólík lýsa þau þeirri grundvallarafsstöðu IFAW að best sé að finna leiðir sem þjóni bæði hagsmunum manna og dýra. Það kallar stundum á vísindalega nálgun og í því skyni höfum við á okkar snærum mjög færa vísindamenn á sviði villtra land- og sjávarspendýra. Rætt verður um verkefni IFAW á Íslandi og um samstarf samtakanna við Íslendinga um að þróa hvalaskoðun sem gjaldeyrisskapandi ferðaþjónustu og hnignandi stöðu hvalveiða hvað varðar atvinnusköpun, efnahag og ímynd Íslands. Greint verður frá rannsóknum IFAW á Íslandi og samstarfi við hérlenda háskóla og vísindasamfélag.

IFAW - Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn eru stærstu alþjóðlegu dýraverndunarsamtök í heimi með yfir 2 milljónir félagsmanna og starfsemi í yfir 30 löndum og í öllum heimsálfum. Samtökin voru stofnuð árið 1969. IFAW hafa komið að málefnum villtra sjávarspendýra við Ísland frá árinu 1990 þegar fyrsta hagkvæmnisathugunin var gerð á kostum skipulagðra hvalaskoðunarferða við Ísland. Hugmyndafræði IFAW snýst um að lágmarka árekstra á milli manna og villtra dýra og finna jákvæða valkosti í stað grimmúðlegra eða ónauðsynlegra dýradrápa. Samtökin beina sjónum sérstaklega að dýrum í útrýmingarhættu og leggja áherslu á vísindalega nálgun og náið samstarf við yfirvöld og heimamenn á hverjum stað.

Fleiri fréttir