Tindastóll í undanúrslitin í Lengjubikarnum
Stjarnan í GARÐAbæ fékk lið Tindastóls í heimsókn í gærkvöldi í síðasta leiknum í riðlakeppni Lengjubikarsins. Fyrir leik var ljóst að Stjarnan þurfti að sigra leikinn með 16 stiga mun til að skjótast upp fyrir Stólana í riðlinum til að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.
Það hafðist ekki, mestur varð munurinn 13 stig þegar skammt var til leiksloka en Stólarnir börðust af krafti og fór svo að lokum að Stjarnan hafði 12 stiga sigur, 98-86, og Tindastóll því í undanúrslitum Lengjubikarsins sem fara fram í Stykkishólmi nk. föstudagskvöld – ef veður leyfir.
Þar mæta strákarnir liði Þórs frá Þorlákshöfn en í hinum leiknum mætast Snæfell og Grindavík. Úrslitaleikurinn fer síðan fram á laugardeginum. Allir leikirnir verða sýndir beint á Sport TV.
Tindastólsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnir í 0-11 áður en tvær mínútur voru liðnar. Það var svosem ekki viðbúið að strákarnir tækju Stjörnumenn á núllinu og komust heimamenn yfir, 22-19, eftir sjö mínútna leik. Stólarnir kláruðu fjórðunginn sterkt, Pétur Birgisson setti niður þrist, og staðan 26-30 að loknum fyrsta leikhluta. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta en gestirnir höfðu yfirhöndina og voru yfir í leikhléi, 44-51.
Stólarnir héldu forystunni fram undir miðjan þriðja leikhluta en í stöðunni 53-59 duttu Stjörnumenn í gírinn og gerðu 23 stig gegn 7 stigum Stólanna til loka þriðja leikhluta og voru því yfir, 76-66, þegar fjórði leikhluti hófst. Tindastólsmenn komu baráttuglaðir til leiks í fjórða leikhluta, Sigtryggur Arnar setti niður rándýran þrist og minnkaði muninn í 7 stig og Hreinsi sendi einn sömu leið stuttu síðar og ljóst að Stjörnumenn fengju ekkert ókeypis hjá Stólunum. Þeir reyndu þó hvað þeir gátu á lokamínútunum, náðu sem fyrr segir 13 stiga forystu þegar tæplega ein og hálf mínúta var eftir en Stólarnir héldu út og sigr... töpuðu 98-86 og það dugði til.
Stig Tindastóls: Valentine 25 / 11 fráköst, Gibson 22 / 12 stoðsendingar, Hreinsi 11, Helgi Rafn 7, Þröstur 6, Pétur Rúnar 5, Sigtryggur Arnar 4, Ingvi Rafn 3, Svabbi 2 og Helgi Margeirs 1.