Tindastólssigur í rislitlum leik

Tindastóll landaði sínum þriðja sigri í Iceland-Express deildinni í kvöld þegar Stjörnumenn komu í heimsókn í Síkið. Lokatölur urðu 84-78, í frekar ósannfærandi leik af hálfu heimamanna. Reyndar þurftu þeir ekki að taka á honum stóra sínum í leiknum, þar sem Stjörnuliðið virkaði dauft.

Darrell Flake spilaði fyrsta leikhlutann glimrandi vel og skoraði 12 stig af 20 stigum heimamanna í leikhlutanum sem fór 20-16 fyrir Tindastól.

Eftir rúmar þrjár mínútur af öðrum leikhluta voru Stjörnumenn búnir að minnka muninn í 1 stig 24-23 en þá tóku Tindastólsmenn við sér skoruðu 9 stig í röð. Stjörnumenn brugðu á svæðisvörn í leikhlutanum og áttu heimamenn í talsverðu basli með hana, reyndu frekar erfið skot að utan í stað þess að nota stóru mennina inn í. En á móti kom að Stjörnumönnum voru einnig mislagðar hendur í sókninni. Ísak sem hafði haft hljótt um sig fram að þessu skoraði síðustu körfu hálfleiksins og staðan var 40-31 í hálfleik.

Hreinn Birgisson hóf seinni hálfleikinn í stað Ísaks sem var með þrjár villur á bakinu og það má með sanni segja að hann og stóri bróðir Svavar, hafi komið hlutunum af stað í upphafi seinni hálfleiks því þeir skoruðu í sameiningu fyrstu 9 stigin. Stjarnan reyndi pressuvörn allan völlinn en hún var ekki að skila miklu fyrir þá og TIndastóll hafði þægilega forystu eftir þriðja leikhlutann 66-55.

Heimamenn voru sjálfum sér verstir í síðasta leikhlutanum og ómarkviss sóknarleikur þeirra hleypti Stjörnumönnum almennilega inn í leikinn. Justin Shouse og Fannar Helgason fóru nokkuð mikinn í leikhlutanum og þegar um fjórar og hálf mínúta voru eftir munaði aðeins tveimur stigum á liðunum 70-68. Þá kom Ben Luber með fjögur mikilvæg stig í röð en áfram hélt Stjarnan heimamönnum við efnið og þegar einungis 1.45 var eftir var staðan 76-72. Ben Luber setti víti niður í lokin af all nokkru öryggi og tvö mikilvæg í stöðunni 81-78 og kom Tindastóli í 83-78. Hreinn Birgisson skoraði svo síðasta stig Tindastóls og kórónaði fínan leik sinn og lokatölur eins og áður sagði 84-78.

Darrell Flake skoraði 26 stig og tók 15 fráköst. Hanne r gríðarlega mikilvægur Tindastólsliðinu, því ekki er hann aðeins góður skorari og frákastari, heldur hefur hann einnig gott auga fyrir sendingum. Ben Luber var lengi í gang en setti 17 stig að lokum og sendi frá sér einar 6 stoðsendingar. Svavar hresstist í seinni hálfleik eftir að hafa verið daufur í þeim fyrri og skoraði 14 stig auk þess að hirða 4 fráköst. Helgi Rafn kom nú aftur inn í liðið eftir leikbann og sýndi hversu mikilvægur hlekkur hann er í liðinu. Hann skoraði 8 stig og tók 5 fráköst. Hreinn Birgisson er mjög vaxandi í leik sínum þessa dagana og skilar mjög mikilvægum mínútum fyrir liðið. Hann skoraði 7 stig að þessu sinni og lék vel. Ísak var ólíkur sjálfum sér, lenti í villuvandræðum snemma, en náði að setja tvo þrista í leiknum. Sören Flæng náði ekki að fylgja ágætri byrjun sinni eftir, hann skoraði 6 stig í leiknum og tók 5 fráköst.

Tindastólsliðið hefði á köflum mátt nýta yfirburði sína í teignum mun betur og mata þá félaga Flake og Flæng betur, sérstaklega þegar sóknin var ekki að rúlla vel. Þetta var síðasti heimaleikur Bens Lubers, en hann heldur af landi brott eftir útileik Tindastóls á sunnudaginn gegn Njarðvík.

Hjá Stjörnumönnum var Fannar Helgason gríðarlega duglegur, skoraði 16 stig og tók 13 fráköst og Justin Shouse vaknaði til lífsins í seinni hálfleik og lauk leik með 28 stig og 8 fráköst. Jovan Zdravevski setti 22 stig niður auk þess að taka 8 fráköst. Stjarnan hefði þurft fleiri leikmenn til að stíga upp, liðið virkaði dauft alveg þangað til í seinni hluta fjórða leikhluta.

Eftir leikinn er Tindastóll með 6 stig eftir fjóra leiki. Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn gegn Njarðvíkingum suður með sjó.

 

Fleiri fréttir