Tíu Stólastúlkur skrifa undir samninga við knattspyrnudeild Tindastóls

Stúlkurnar sem skrifuðu undir samning við Tindastóls sl. sunnudag. Efri röð frá vinstri:  Margrét Rún, Ingibjörg Fjóla, Bergljót Ásta, Bryndís Rut og Kristrún María. Neðri röð: Magnea Petra, Hugrún, Birna María, Sólveig Birta og Anna Margrét. MYNDIR: ÓAB
Stúlkurnar sem skrifuðu undir samning við Tindastóls sl. sunnudag. Efri röð frá vinstri: Margrét Rún, Ingibjörg Fjóla, Bergljót Ásta, Bryndís Rut og Kristrún María. Neðri röð: Magnea Petra, Hugrún, Birna María, Sólveig Birta og Anna Margrét. MYNDIR: ÓAB

Síðastliðinn sunnudag skrifuðu tíu heimastúlkur undir samninga við knattspyrnudeild Tindastóls. Stúlkurnar skrifuðu undir í Húsi frítímans á Króknum á sama tíma og þjálfarateymið gekk frá sínum samningum. „Ég er gríðarlega sáttur við að búið sé að klára þessar undirskriftir við leikmenn og þjálfara og stefnum við á að klára samninga við restina af hópnum á allra næstu dögum,“ sagði Rúnar Rúnarsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, í samtali við Feyki.

„Aðaláherslan hjá okkur er, og hefur verið, að halda í uppaldar Tindastólsstelpur og leyfa þeim að þróa sína hæfileika og sinn leik áfram og byggja þannig til framtíðar. Við erum virkilega ánægð með að búið sé að ganga frá þjálfaramálum og núna vantar aðeins nokkur púsl til að allt sé klárt fyrir sumarið,“ segir Rúnar.

Þær sem skrifuðu undir samninga voru Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði liðsins, Anna Margrét Hörpudóttir, Bergljót Ásta Pétursdóttir, Birna María Sigurðardóttir, Hugrún Pálsdóttir, Ingibjörg Fjóla Ágústsdóttir, Kristrún María Magnúsdóttir, Magnea Petra Rúnarsdóttir, Margrét Rún Stefánsdóttir og Sólveig Birta Eiðsdóttir. Áður höfðu Amber Michel, Jackie Altschuld og Murielle Tiernan samið við Tindastól en þær eru nú nánast orðnir Króksarar eftir ævintýri síðustu sumra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir