Tóm stund? - Áskorandapenninn, Hrefna Jóhannesdóttir Silfrastöððum

Ég er fædd og uppalin á Silfrastöðum til fimm ára aldurs en hafði svo ekki fasta búsetu aftur þar fyrr en haustið 2015. Í millitíðinni hef ég búið víða og kynnst mörgum. Þá hefur oft komið til tals hvað maður sé nú óskaplega upptekinn. Ég áttaði mig samt fljótlega á því að það væri óviðeigandi að kvarta yfir því við sveitunga mína. Þeir eru nefnilega upp til hópa afskaplega duglegir og bóngóðir og langt frá því að vera kvartsárir. Og það sem betra er, þeir eru alltaf til í að lyfta sér aðeins upp í góðra vina hópi.

Kem ég þá að innblæstri þessa pistils en það er nokkuð sem er mínum norska manni hugleikið, orðið tómstund. Þó að Norðmenn og Íslendingar séu um margt líkir, þá eru frændur okkar Norðmenn töluvert duglegri að greina á milli frítíma og vinnu. Johan þykir stórkostlegt að Íslendingar skuli nota orðið tómstund yfir þá iðju að sinna sínum hugðarefnum. Tóm stund, það er að segja stund sem ekki er helguð öðrum verkum. En það má einnig líta á tómstund sem andstæðu vinnu og þann tíma sem fólk endurnýjar sig eftir vinnudaginn, gefur sér tóm til einhvers. Eða eins og fésbókarvinur skrifaði um daginn „það getur verið hvíld í öðru en að bara hlamma sér niður“. Ein klisjan segir, gerðu meira af því sem gerir þig hamingjusama/n. Og það má einmitt segja að sé kjarni tómstunda, ástundun felur í sér vellíðan og aukningu á lífsgæðum.

Nú er ég vissulega svo heppin að sinna starfi sem sameinar áhugamálin; útivist, ræktun lands og umhverfismál. En ég tel að það sé engu að síður mikilvægt fyrir alla að skoða reglulega hvort þeir gefi sjálfum sér svigrúm til þess að stunda hin eiginlegu áhugamál og gera hluti sem veita þeim hamingju. Slíkt smitar út frá sér og getur stuðlað að betra samfélagi.

Ég skora á æskuvinkonu mína Laufeyju Leifsdóttur, bónda og ritstjóra í Stóru-Gröf syðri, að færa hugsanir sínar í orð.

Áður birst í 25. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir