Tónlistarnám í Skagafirði og fyrirhugað menningarhús | Inga Rósa Sigurjónsdóttir skrifar

Frá tónleikum Tónlistarskóla Skagafjarðar í Miðgarði 2022. AÐSEND MYND
Frá tónleikum Tónlistarskóla Skagafjarðar í Miðgarði 2022. AÐSEND MYND

Síðastliðin átta ár hefur dóttir mín stundað fiðlu og píanónám við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Í fiðlunáminu er gert ráð fyrir að foreldri komi með barni sínu í kennslustundir fyrsta árið, og ég hef því setið í ótal kennslustundum og nokkrum mismunandi kennslustofum í gegnum tíðina. Ég tel mig því þekkja nokkuð vel til starfseminnar.

Við Tónlistarskólann starfar frábært og metnaðarfullt kennarateymi sem leggur sig fram um að veita nemendum faglegt og hvetjandi tónlistarnám. Hins vegar er ljóst að aðstaðan sem kennurum og nemendum er boðin upp á er ekki í samræmi við það mikilvæga starf sem þar fer fram.

Nemendum er t.d. boðið að spila á tónleikum í matsal Árskóla (sem er hannaður með það fyrir augum að dempa hljóð) sem er langt frá því að vera hentugur vettvangur fyrir slíka viðburði. Af virðingu við nemendur og kennara er kominn tími til að Tónlistarskólinn fái aðstöðu sem hæfir mikilvægi tónlistarnámsins bæði hvað varðar kennslustofur og tónleikasal.

Í ár eru 158 nemendur skráðir í nám við skólann og þar starfa sjö kennarar í fullu starfi. Það eitt segir sitt um umfang og mikilvægi starfseminnar. Nú ætti Sveitarfélagið Skagafjörður að sýna í verki að því sé annt um tónlistaruppeldi barna í héraðinu og tryggja Tónlistarskólanum framtíðarheimili í væntanlegu menningarhúsi. Þar sem húsið er meðal annars hannað fyrir leiksýningar ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að sami salur nýtist einnig fyrir tónleika án mikilla breytinga.

Ég skora á sveitarstjórnina að skoða með opnum huga hvernig kennsluaðstaða Tónlistarskólans er í dag og spyrja sig hvort hún endurspegli virðingu okkar fyrir menningu, listum og framtíð ungs fólks í Skagafirði.

Inga Rósa Sigurjónsdóttir

 

 

 

Fleiri fréttir