Tóti Eymunds og Helga Una Björnsdóttir í landsliðshóp LH

Landslið Íslands í hestaíþróttum. Mynd af Fb LH.
Landslið Íslands í hestaíþróttum. Mynd af Fb LH.

Landssamband hestamannafélaga (LH) kynnti á blaðamannafundi í Bláa Lóninu í gær landsliðshóp LH í hestaíþróttum sem er fyrsta skrefið í breyttum áherslum LH í afreksmálum. Á Facebook-síðu sambandsins segir að hingað til hafi landslið Íslands á HM verið valið út frá svokölluðum lykli og úrtökumóti en nú verður breyting á.

Á úrtökumótum gátu fimm knapar tryggt sér sæti í landsliðinu og liðstjórinn valdi tvo í viðbót, var þá m.a. litið til árangurs á Íslandsmóti og keppnisárangurs íslenskra knapa erlendis. Landsliðið var svo kynnt rúmum mánuði fyrir HM og segir í tilkynningunni að segja megi að landsliðið hafi verið virkt í rétt rúma tvo mánuði sem er afar stuttur tími og áherslan skiljanlega einungis á þann viðburð.

Breytingin sem LH hefur gert á landsliðsmálum er að landsliðshópur LH verður virkur allt árið um kring og mun koma að ýmsum viðburðum, mótum og sýningum sem eru til þess fallnar að efla hestaíþróttina og styrkja liðið til árangurs.

„Með því að halda úti virkum landsliðshóp gefst tækifæri til að sinna betur markvissu afreksstarfi í hestaíþróttum þar sem áhersla er lögð á knapann sem íþróttamann. Meðal annars verður starfrækt fagteymi sérfræðinga á heilbrigðis- og íþróttasviði, sem verða landsliðsknöpum innan handar í sinni þjálfun. Ætlunin er að halda áfram með þær mælingar sem LH, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, lét gera á landsliðsknöpum 2017 og á afrekshóp ungmenna LH s.l. ár,“ segir í tilkynningu LH á Facebook síðu sinni.

Meðal landsliðsmanna eru tveir af Norðurlandi vestra, Þórarinn Eymundsson á Sauðárkróki og Vestur-Húnvetningurinn Helga Una Björnsdóttir frá Syðri-Reykjum í Miðfirði. Auk þeirra eru Skagfirðingurinn Jóhann Skúlason, sem býr í Danmörku og Bergþór Eggertsson frá Bjargshóli i Miðfirði en hann býr í Þýskalandi.

Helga Una stundar tamningar á Fákshólum í Ásahreppi ásamt þremur öðrum. Hún segir það mjög gaman að hafa verið valin í landsliðið og mikill heiður að vera með þessu góða fólki. Henni líst vel á nýtt fyrirkomulag og telur það mun sýnilegra en áður.

Þórarinn segir að auk þess að vera mikill heiður þá sé þetta mikil hvatning fyrir tímabilið. „Ég var á báðum áttum hvort ég ætti að taka þátt áður en þessi breyting kom til en nú er bara upp með höfuð og stefna á mót.“

Sjá tilkynningu LH HÉR 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir