Tvíburar frá Hofsósi fengu styrk úr Hvatningarsjóði Kviku

Tvíburasystkinin Ester María Eiríksdóttir og Jón Örn Eiríksson frá Hofsósi, fengu í gær styrk úr Hvatningarsjóði Kviku, hvort um sig upp eina milljón króna. Hvatningarsjóðurinn, sem er samstarfsverkefni Kviku og Samtaka iðnaðarins, hefur það að markmiði að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf að því er segir á vef Kviku. Styrktarfjárhæð sjóðsins er fimm milljónir króna á ári í þrjú ár.
Ester María og Jón Örn eru í hópi tíu einstaklinga, sex kvenna og fjögurra karla, sem hlutu styrk úr Hvatningarsjóðnum að þessu sinni. Þrír fengu eina milljón króna, tveir fengu 500 þúsund krónur og fimm fengu 200 þúsund krónur.
Ester María og Jón Örn eru 17 ára gömul og eru bæði á öðru ári í framhaldsskóla. Ester nemur húsasmíði við Verkmenntaskólann á Akureyri en stefnir á nám í húsgagnasmíði í framhaldi af því. Einnig hyggst hún klára stúdentsprófið til viðbótar við iðnnámið. Jón Örn stundar nám í rafvirkjun við Raftækniskólann í Reykjavík og setur stefnuna á Hljóðtækniskólann í framhaldi af því þar sem hann hugsar sér að læra hljóðvinnslu. Jón Örn var ekki nema 14 ára gamall þegar hann hannaði app fyrir android spjaldtölvu sem er ætlað að halda utan um reykköfun. Hann seldi það til Mannvirkjastofnunar og keypti sér skellinöðru og DJ-græjur fyrir peningana að því er segir í frétt á Vísi.is. Auk systkinanna fékk Aðalheiður Dögg Reynisdóttir eina milljón króna í styrk en hún er 21 árs Garðbæingur sem nú er í starfsnámi hjá Michelin stjörnu veitingastaðnum Pollen Street Social í London.
Í úthlutunarreglum sjóðsins segir m.a. að til að geta sótt um styrk í sjóðinn þurfi nemar að hafa, að lágmarki, lokið fyrsta ári í námi í löggiltum iðngreinum sem heyra undir Samtök iðnaðarins.Styrkir geta numið á bilinu 200.000 – 1.000.000 króna.
Í reglunum segir einnig: „Umsækjendur sem þiggja styrk að fjárhæð kr. 500.000 eða meira skuldbinda sig til vinna að framgangi og markmiðum sjóðsins í samstarfi við Kviku og Samtök iðnaðarins. Í þvi felst m.a. að viðkomandi aðilar skuldbinda sig, án frekara endurgjalds, til að taka þátt í kynningum og auglýsingum á sjóðnum, s.s. með viðtölum og myndum sem Kviku er heimilt að nota í kynningum á líftíma sjóðsins.“
Á vef Kviku segir í umfjöllun um sjóðinn að styrkja þurfi ímynd iðnnáms og starfa sem því tengjast og efla áhuga og vitund grunnskólanema, foreldra, atvinnurekenda og almennings á mikilvægi iðnnáms en skortur á iðnmenntuðu fólki sé víða orðinn hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Hvatningarsjóði Kviku sé ætlað að bregðast við þessu með styrkjum til nema í iðnnámi. Þá er tekið fram að sérstök áhersla sé lögð á að auka hlutfall kvenna og því séu konur sérstaklega hvattar til að skoða þau tækifæri sem bjóðast.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.