Tvö stig til Stólanna í sveifluleik á Egilsstöðum

Stólarnir gerðu vel í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA
Stólarnir gerðu vel í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn ráku af sér sliðruorðið í kvöld þegar þeir mættu liði Hattar á Egilsstöðum. Leikurinn var ansi kaflaskiptur og Stólarnir spiluðu síðasta stundarfjórðunginn án Shawn Glover sem fékk þá sína aðra tæknivillu. Án hans gerðu strákarnir okkar vel, juku muninn jafnt og þétt á lokakaflanum eftir áhlaup heimamanna og lönduðu mikilvægum sigri. Lokatölur voru 86-103.

Oft hafa Stólarnir lent í basli á Egilsstöðum enda heimamenn þekktir fyrir góða baráttu. Þeir höfðu sýnt góðan leik í síðustu umferð á meðan gestir þeirra voru ansi bragðlitlir í tapleik gegn Val. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en það voru heimamenn sem náðu góðum kafla undir lok leikhlutans og voru yfir, 29-20, að honum loknum. Baldur hefur sennilega ekki verið par sáttur með að fá á sig 29 stig og trekkti sína menn upp á nýtt og sendi þá hamstola til leiks á ný. Það er skemmst frá því að segja að Stólarnir sýndu glimrandi leik, skelltu í 0-15 kafla og unnu leikhlutann á endanum 11-32. Glover fór mikinn í þessum leikhluta og gerði 14 stig en staðan í hálfleik 40-52.

Ekki lögðu heimamenn árar í bát þótt á móti blési því þeir skelltu í 9-0 kafla í upphafi þriðja leikhluta með Michael Mallory í miklum ham. Antanas okkar Udras, sem endaði leikinn með 23 stig og stigahæstur Stólanna, kom sínum mönnum á blað en Siggi Þorsteins og Dino Stipcic jöfnuðu leikinn 54-54. Körfur frá Pétri og Tomsick kom Stólunum aftur á bragðið og var liðið átta stigum yfir þegar Glover fékk reisupassann. Þrjár sólókörfur frá Tomsick komu Stólunum í 59-69 og einn langdrægur þristur frá Udras gladdi augað. Þriggja stiga dans í lok leikhlutans leiddi til þess að átta stigum munaði fyrir lokaátökin. Staðan 69-77 og heimamenn efalaust séð möguleika í spilinu.

Þeir komu enda hungraðir til leiks í fjórða leikhluta og þegar sex og hálf mínúta var eftir minnkaði Siggi Þorsteins muninn í tvö stig, 78-80. Þá kom risa þristur frá Pétri og leikurinn snérist á punktinum. Tindastólsmenn gerðu 20 stig það sem eftir lifði leiks á meðan heimamenn gerðu átta og það voru því Stólarnir sem skelltu tveimur sætum stigum í skottið á Stólarútunni og halda heim á Krók léttir í lund.

Sem fyrr segir ansi sveiflukennt í kvöld og þjálfari Stóla örugglega ekki sáttur við að fá 29 stig á sig í fyrsta og þriðja leikhluta. Ellefu stig í öðrum og 17 í fjórða heldur betra en vörnin augljóslega áhyggjuefni. Udras var sem fyrr segir stigahæstur Tindastólsmanna og hann tók einnig flest fráköst eða tíu stykki. Glover var með 22 stig og sjö fráköst og Tomsick var með 21 stig og sjö stoðsendingar. Pétur var með ellefu stig, Viðar sjö og Jaka Brodnik gerði 13 stig en Stólarnir náðu sínum bestu köflum með hann inn á.

Næsti leikur á fimmtudagskvöldið þegar Tindastólsmenn heimsækja Þórsara á Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir