Tvö verkefni af Norðurlandi vestra hljóta umhverfisstyrki
Fjórtán verkefni fengu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans sl. mánudag og voru tvö verkefni á Norðurlandi vestra þeirra á meðal. Þau voru ræktun Brimnesskóga í Skagafirði og bætt aðgengi að Vigdísarlundi á Borðeyri og hlutu þau 250 þús.kr. styrk hvor.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsbankanum er umhverfisstyrkjum ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið.
Sex verkefni hlutu 500 þúsund krónur hvert og átta verkefni 250 þúsund krónur, samtals fimm milljónir króna. Alls hafa um sextíu verkefni hlotið umhverfisstyrki á síðustu fjórum árum, samtals 20 milljónir kr. Þetta er í fjórða sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans og bárust um 90 umsóknir.
Um styrkþega frá Norðurlandi vestra segir:
Brimnesskógar - Ræktun Brimnesskóga í Skagafirði en eingöngu er notað landnámsbirki og reyniviður sem vaxið hefur í Skagafirði frá öndverðu.
Kvenfélagið Iðunn – Til að bæta aðgengi að Vigdísarlundi á Borðeyri. Markmiðið er að koma upp varanlegri gönguleið að lundinum, vernda viðkvæma gróðurþekju og auka á virðingu staðarins.
„Það er stefna Landsbankans að vinna í sátt við umhverfið. Umhverfisstyrkir eru ein leið bankans til að verðlauna góðar hugmyndir og leggja þeim lið sem vilja gera vel í umhverfismálum og náttúruvernd,“ segir Jensína Kristín Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum.