Umsóknir og styrkveitingar Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra með tilliti til kynferðis

Mynd:ssnv.is
Mynd:ssnv.is

Nýlega birtist á vef SSNV athyglisverð samantekt yfir umsóknir og styrkveitingar Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra til atvinnuþróunar og nýsköpunar og menningar þar sem sérstaklega var litið til þess hvort sjá mætti einhvern mun á kynjunum varðandi þessa þætti.

Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra var stofnaður árið 2015 og hefur því verið úthlutað fimm sinnum úr sjóðnum. Á þeim tíma hafa alls borist 575 umsóknir þar sem em óskað hefur verið eftir 930 milljónum í styrki. 

Konur eru í forsvari fyrir nokkurn meirihluta þessara verkefna eða 59% umsókna en karlmenn 41%. Afur á móti er athyglisvert að konur sækja almennt um lægri styrkupphæðir en karlar eða um 1.425.000 kr. að meðaltali en karlar um 1.885.000 kr. að meðaltali. 

Á þessum fimm árum hefur verið úthlutað alls 320 milljónum kr. í styrki. Þar eru konur 57% styrkhafa en karlar 43% þannig að það eru örlítið færri konur sem fá styrki en þær sem sækja um þó munurinn sé ekki mikill. Upphæðin sem úthlutað hefur verið til kvenna er að meðaltali 780.000 kr. en 850.000 kr. til karla en þær fá hlutfallslega heldur hærri styrki miðað við umsóknarupphæð en karlarnir. 

Á vef SSNV segir um niðurstöður þessar: „Hvort og þá hvernig ber að túlka þessar niðurstöður er svo annað mál. Konur eru greinilega duglegri að sækja um styrki til Uppbyggingarsjóðs og gildir það bæði um atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrki og menningarstyrki. Er einhver skýring á því? Eins má spyrja hvort konur séu varfærnari eða raunsærri þegar kemur að upphæðum eða eru þeirra verkefni almennt smærri í sniðum? Eða reikna þær sér kannski lægra tímakaup en karlmenn í verkefnunum? Eru einhverjar aðrar ástæður? 

Þessum spurningum verður ekki svarað hér enda hefur þetta ekki verið rannsakað. Í fagráðum og úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs eru bæði konur og karlar og þar er eingöngu litið á verkefnin sjálf, ekki hvort kona eða karl er þar í forsvari. Það verður því að leita annarra skýringa?“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir