Undirbúningur Jónsmessuhátíðar á Hofsósi að fara á fullt
Undirbúningur að Jónsmessuhátíð á Hofsósi er nú að fara á fullan skrið. Hátíðin verður haldin helgina 16. - 18. júní og er dagskráin óðum að taka á sig mynd. Hafa forsvarsmenn hátíðarinnar lagt inn góðviðrisóskir hjá veðurguðunum en svar hefur þó ekki borist.
Að sögn Kristjáns Jónssonar, formanns Jónsmessunefndar, verður dagskrá hátíðarinnar með svipuðu sniði og undanfarin ár þó að alltaf megi gera ráð fyrir að einhverjir dagskrárliðir falli út og aðrir komi í þeirra stað. Kjötsúpan vinsæla verður á sínum stað, svo og kvöldvakan á föstudagskvöldi. Eins verður mikið lagt í barnadagskrá að vanda og líkt og í fyrra verður haldinn fjölskyldudansleikur á laugardag. Þórunn og Halli munu leika fyrir dansi í Höfðaborg á föstudagskvöldið en Hljómsveit kvöldsins heldur uppi stuðinu á laugardagskvöld.
Þá vildi Kristján koma því á framfæri að íbúafundur verður haldinn í Höfðaborg næsta mánudagskvöld kl. 20:00 þar sem áhugasömum gefst tækifæri til umræðna og uppástungna varðandi hátíðina.