Unglingum vinnuskólans boðið í vinnustofu á vegum Blönduósbæjar og Listasafns Alþýðu
Blönduósbær og Listasafn Alþýðu hafa tekið höndum saman og skipulagt vinnustofu fyrir unglinga í vinnuskóla bæjarins dagana 10. og 11. júlí. Einnig hafa stéttarfélagið Samstaða á Blönduósi og menningarbændurnir á Kleifum haft hönd í bagga við undirbúning námskeiðsins.
Námskeiðið er hluti af stærra verkefni þar sem Listasafn ASÍ skipuleggur vinnustofur í hreyfimynda- og stuttmyndagerð í skólum á ýmsum stöðum víðsvegar um landið. Námskeiðið á Blönduósi er haldið í tengslum við sýningu Sigurðar Guðjónssonar INNLJÓS sem opnar laugardaginn 7. júlí í útihúsunum að Kleifum við Blönduós. Þátttakendur í námskeiðinu fá þar tækifæri til að kynnast nýjustu verkunum í safneign Listasafns ASÍ um leið og þau læra um eldri verk sem safnið geymir.
Verkefnið felst í því að farið er með málverk úr stofneign Listasafns ASÍ inn í skólastofu eða vinnustofu þar sem nemendur fá að skoða verkið og fræðast um tilurð þess og höfund. Börnin/unglingarnir vinna síðan hreyfimyndir sem innblásnar eru af viðkomandi verki. Þannig gefst þeim tækifæri til túlka verkið og gefa því nýtt líf. Þau rýna ofan í það sem helst vekur áhuga þeirra í verkinu; liti, birtu, form, stíl, bakgrunn eða það umhverfi sem verkið sjálft spratt úr á sínum tíma. Nemendur vinna í litlum hópum með aðstoð kennaranna, búa til söguþráð, vinna annað hvort klippimyndir úr pappír, mynda þær með spjaldtölvum og klippa þær til í klippiforriti eða endurgera málverkið á annan hátt, mynda atburð með vídeó-vél og hljóðsetja. Þannig kynnast nemendur vel verkinu sjálfu í samhengi við listasöguna, læra um myndbyggingu, sjónarhorn og litanotkun, sögugerð og handritaskrif (storyboard), tæknivinnslu, hljóðvinnslu og kynnast jafnframt kvikmyndaferlinu frá upphafi til enda. Að þessu sinni verður unnið með málverkið ,,Hestur í jökulvatni‘‘ eftir Jón Stefánsson en listamaðurinn var fæddur og uppalinn á Norurlandi vestra, nánar tiltekið á Sauðárkróki.
Kennarar á námskeiðinu að þessu sinni eru Kolbeinn Hugi Höskuldsson myndlistarmaður og Sigrún Jónsdóttir básúnuleikar og tónskáld. Kolbrún Vaka Helgadóttir vinnur stutta heimildarmynd um vinnustofuna sem verður gerð aðgengileg á heimasíðu Listasafnsins ásamt stuttmyndum frá öðrum stöðum.
Frekari upplýsingar veitir Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns Alþýðu, sími: 868 1845 – netfang: listasi@centrum.is
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.