Ungur fatlaður Blönduósingur berst fyrir draumi sínum.
Rúnar Þór Njálsson er 25 ára gamall Blönduósingur sem berst nú fyrir draumi sínum. Rúnar er með CP fjórlömun og er í hjólastól en hann fæddist þremur mánuðum fyrir tímann og vó þá aðeins fjórar merkur.
Stærsti draumur Rúnars Þórs er að komast í ferð til Nýja-Sjálands en eins og hann segir á Facebooksíðu sinni er hann RISA nörd þegar kemur að Hringadróttinssögu en myndirnar sem gerðar voru eftir sögunni voru einmitt teknar upp á Nýja-Sjálandi. „...minn stærsti draumur er að ferðast til Nýja-Sjálands og fara í sérstakan 14 daga skoðunartúr, skoða landið, hitta fólkið á bakvið gerð þessara kvikmynda og bara upplifa eins mikið og ég mögulega get. Mér finnst frekar erfitt að finna réttu orðin til að lýsa hversu mikið Lord of the Rings, Hobbit og bara þessi ævintýraheimur í heild, er mér mikils virði. Það líður ekki dagur þar sem ég geri ekki eitthvað tengt þessu og ef ég á slæman dag get ég alltaf gleymt mér í þessum heimi og gleymt fötlun minn og vandræðum þó það sé ekki nema í smástund,“ segir Rúnar Þór.
Rúnar Þór, sem hóf söfnun sína fyrir ári síðan, hefur nú safnað rúmlega milljón króna en alls kostar ferðin rúmar þrjár milljónir. „Ég veit sem er að ég gæti aldrei gert þetta einn og því þarf ég að taka gott fólk með mér. Ég mun aldrei hafa efni á þessu sjálfur og því hélt ég alltaf að þessi draumur minn yrði bara draumur og yrði aldrei að veruleika. Svo uppgötvaði ég þessa frábæru síðu [gofundme.com] þar sem fólk tekur sig saman og hjálpar fólki hvort sem það er vegna veikinda eða að láta fjarlæga drauma, eins og minn, rætast. Þannig að ég ákvað að slá til og með hjálp frá góðu fólki er síðan mín tilbúin,“ segir Rúnar Þór ennfremur á Facebooksíðu sinni.
Rúnar Þór segir að upphæðin þurfi ekki að vera stór, allt skipti máli, hver deiling og hver innlögn. Hægt er að leggja Rúnari Þór lið á söfnunarsíðu hans og er slóðin þangað https://www.gofundme.com/2dj937ms eða með því að leggja beint inn á reikning hans. Þar er reikningsnúmerið 307-26-9119 og kennitalan 261191-2619.
Rúnar Þór var í viðtali við Stöð 2 í síðustu viku og má nálgast það á visir.is