Unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Kattarauga

Kattarauga í Vatnsdal. Mynd: Ust.is.
Kattarauga í Vatnsdal. Mynd: Ust.is.

Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins segir frá því að undirbúningur sé hafinn hjá Umhverfisstofnun að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið Kattarauga við Kornsá í Vatnsdal sem ætlað er að fjalla um markmið með verndun svæðisins og hvernig stefnt skuli að því að viðhalda verndargildi þess. Við gerð hennar er lögð mikil áhersla á samráð og samstarf við hagsmunaaðila. Að ósk Umhverfisstofnunar hefur Húnavatnshreppur tilnefnt fulltrúa í samstarfshóp um gerð áætlunarinnar og var Magnús Rúnar Sigurðsson tilnefndur af hálfu sveitarfélagsins en þar eiga einnig sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, og landeiganda. 

Á vef Umhverfisstofnunar segir: „Kattarauga var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Tjörnin Kattarauga liggur innan jarðarinnar Kornsár 2 og er alldjúpur pyttur sem í eru tveir fljótandi hólmar sem reka undan vindi. Mikið og stöðugt rennsli er í gegnum tjörnina. Í botni tjarnarinnar er lindarauga sem glittir á þegar logn er og bjartur dagur. Af lindarauganu dregur tjörnin nafn sitt. Gróður á svæðinu er dæmigerður íslenskur mýrargróður. Stærð náttúruvættisins er 0,01 ha." 

Verk- og tímaáætlun fyrir vinnuna, ásamt samráðsáætlun má finna á vef Umhverfisstofnunar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir