Unnið að úrbótum á 64 fjarskiptastöðvum með auknu varaafli

Dreifing varaaflstöðva um landið. Kort: Neyðarlínan
Dreifing varaaflstöðva um landið. Kort: Neyðarlínan

Eftir óveðrið í vetur varð ljóst að bæta þyrfti rekstraröryggi fjarskiptastöðva og tryggja að almenningur geti kallað eftir aðstoð í neyðarnúmerið 112 í vá eins og þá skapaðist. Neyðarlínan fór því að vinna að úrbótum á 64 fjarskiptastöðvum víða um land með auknu varaafli og að fjölga færanlegum vararafstöðvum. Þar af eru 36 fastar vararafstöðvar og verða fimm þeirra í Skagafirði og sex í Húnavatnssýslum en annars staðar eru rafgeymar eða tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar. Tilgangurinn er að tryggja rekstraröryggi í fjarskiptum eftir mikil óveður sem gengu yfir landið í vetur.

Í Skagafirði verða fastar rafstöðvar við Einhyrning, Sauðárkrók, Hegranes, Miðgarð og Fljót. Færanlegar rafstöðvar/tenglar verða í Varmahlíð, Hofsósi og við Ketilás og rafgeymir/færanleg stöð/tengill við Straumnes, Fell og Sauðanes.

Í Húnavatnssýslum verða fastar rafstöðvar á Bláhæð, Hvítabjarnarhóli, Grenjadalsfjalli, Laugarbakka, Hnjúkum og Steinnýjarstaðafjalli. Færanlegar rafstöðvar/tenglar verða á Stað, Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd og rafgeymir/færanleg stöð/tengill á Hvammstanga og Hnjúki í Vatnsdal.

Verkefnið er unnið í samstarfi við fjarskiptafélögin og RÚV um endurbæturnar og tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýverið að verkefnið fengi 125,5 milljóna kr. fjárveitingu á þessu ári á vegum fjarskiptasjóðs í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt.

Í fyrsta áfanga verður unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Áformað er að 100 milljónir bætist við þetta verkefni á næsta ári. Þá verður hugað að varaaflstöðvum á Suðurlandi og suðvesturhorni landsins.

Nánar má lesa um málið í tilkynningu Stjórnarráðsins.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir