Uppbókað í inflúensubólusetningar á Sauðárkróki

Allir tímar í inflúensubólusetningu eru uppbókaðir hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki og Akureyri. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að þetta árið sé margfalt meiri eftirspurn en fyrri ár. „Þrátt fyrir að pantaðir hafi verið mikið fleiri skammtar en undanfarin ár þá er ljóst að það dugar ekki til og ekki mun meira berast til landsins að svo stöddu,“ segir á Hsn.is.

Í ár er notað fjórgilda bóluefnið Vaxigrip Tetra sem inniheldur vörn gegn inflúensu A(H1N1), A(H3N2) og tveimur stofnum af inflúensu B. Sóttvarnalæknir mæltist til að þungaðar konur og allir einstaklingar 60 ára og eldri nyti forgangs við inflúensubólusetningu auk barna og fullorðinna sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum. Þá falla heilbrigðisstarfsmenn, sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp að framan einnig í forgangshóp.

Á heimasíðu Landlæknis kemur fram að bólusetning gegn inflúensu veiti yfirleitt allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum en jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir