Upphaf íþróttakeppna - Kristinn Hugason skrifar

Frá fyrsta Evrópumóti íslenskra hesta á myndinni eru Gunnar Bjarnason (til vinstri) og mótshaldarinn Walter Feldmann eldri. „Um miðjan sjöunda áratuginn var farið að halda árlegt mót fyrir íslenska hesta í Aegidienberg og þar hittust Íslandshestavinir víðsvegar úr Evrópu en stofnfundur FEIF var einmitt haldinn við slíkt tækifæri árið 1969.“ (Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, bls. 308). Ljm. úr safni SÍH, Friðþj. Þorkelsson.
Frá fyrsta Evrópumóti íslenskra hesta á myndinni eru Gunnar Bjarnason (til vinstri) og mótshaldarinn Walter Feldmann eldri. „Um miðjan sjöunda áratuginn var farið að halda árlegt mót fyrir íslenska hesta í Aegidienberg og þar hittust Íslandshestavinir víðsvegar úr Evrópu en stofnfundur FEIF var einmitt haldinn við slíkt tækifæri árið 1969.“ (Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, bls. 308). Ljm. úr safni SÍH, Friðþj. Þorkelsson.

Á síðustu misserum hafa birst reglulega hér í Feyki greinar frá Sögusetri íslenska hestsins um hvaðeina sögulegt sem snertir hesta og hestamennsku. Greinar þessar eru jafnframt birtar í vefútgáfu Feykis og eru aðgengilegar á heimasíðu SÍH, undir linknum: http://www.sogusetur.is/is/fraedsla/greinar-forstodumanns-i-feyki Sérstök áhersla hefur verið lögð á að varpa ljósi á ýmislegt sem snertir þróun hestamennskunnar og þá hvað helst sýninga og keppna á hestum.

Fyrstu keppnisgreinaranar voru kappreiðar á skeiði og stökki og stundum er sagt að elsta formlega keppnisgrein í íþróttum íslenska hestsins sé 250 m kappreiðaskeið, það má vel rökstyðja, hér verður hins vegar þeirri flokkun viðhaldið að tala um þrjá aðgreinda þætti keppnisgreina hestamennskunnar: Kappreiðar, gæðingakeppni og íþróttakeppnina. Báðum fyrstnefndu þáttunum hefur nú þegar verið gerð skil í greinaflokknum, þ.e. kappreiðunum og íslensku gæðingakeppninni. Kappreiðarnar komu fyrst til og voru lengi framan af, eftir að stórmótahald hófst, vinsælustu greinarnar.

Umtalsvert verðlaunafé var veitt og veðbankar störfuðu sem gátu gefið nokkuð í aðra hönd. Líkur má leiða að því að skýringu á þessu megi leita, annars vegar í hinni eldgömlu íslensku venju að reyna með sér á hestum á stökki eða skeiði og svo hinu að fyrstu keppnirnar voru jafnvel settar upp fyrir gesti af lystiskipum og þeir þekktu vel til kapp- og veðreiða frá sínum heimalöndum. Samþættur uppruni íslensku gæðingakeppninnar og þróun hennar og dóma kynbótahrossa, eftir að þeir voru gerðir á grunni tölulegs dómkvarða (1950 og eftirleiðis), er svo mjög athyglisvert atriði. Þannig var gæðingakeppninni, þar sem eingöngu geltum reiðhestum var heimil þátttaka, ætlað að varpa ljósi á fegurð og gæði íslensku reiðhestanna, rétt eins og kynbótadómkerfinu hvað hryssur og graðhesta varðaði.

Þetta breyttist svo, gæðingakeppnin snérist einvörðungu að reiðhestskostunum og þátttaka varð svo hryssum og stóðhestum einnig heimil er frá leið. Lengi vel var það þó svo að aðaleinkunn fyrir hæfileika í kynbótadómi og útkoma úr gæðingakeppni A-flokks voru æði áþekkar tæki sama hrossið þátt í báðu og sýndist með áþekkum hætti. Það væri gaman að sjá hvernig þau mál þróast nú við tilkomu nýs dómkvarða og útreikning tveggja meðaltala, þ.e. með og án skeiðs. Höfundur hefur þó ekki skoðað þetta enn þá, enda gagnamagn takmarkað; bara eitt dómaár liðið með nýja dómkvarðanum, þ.e. sumarið í sumar þar sem þátttaka í gæðingakeppnum var að auki lítil.

Saga sú sem hér hefur verið tekin saman í megin atriðum hefur verið rakin allýtarlega í greinarflokki þessum, eins og fyrr segir og skal minnt á hvar greinarnar er að finna. Í þessari grein verður byrjað að rekja sögu íþróttakeppninnar, þ.e. hestaíþrótta, þó sá andi að hestamennskan, í sinni tærustu mynd ástundunnar, væri ekkert annað en íþrótt var til kominn í brjóstum framsæknustu manna löngu fyrr. Þessi saga verður rakin áfram í hinum mánaðarlegum greinum fram til áranóta, þá eða fljótlega á nýju ári er miðað við að lokið sé yfirferð um þann þáttinn. Á nýju ári verður athyglinni svo fyrst og fremst beint að sögu hrossaræktarinnar en þar er af miklu að taka.

Í síðustu grein hér í blaðinu var fjallað um landsmótið á Þingvöllum 1970 sem var mjög sögulegt fyrir margra hluta sakir; vegna hinna voveiflegu  atburða er þá hentu, afleits veðurs  og almennt heldur slæmra aðstæðna. Bent var á í því sambandi með hve miklum ólíkindum það væri hversu oft mælikvarðar dagsins í dag eru settir á löngu liðna atburði. Á hitt er svo rétt að minna að í Morgunblaðinu kemur fram að gestir hefðu verið hvorki meira né minna en 10 þúsund manns sem þýðir að tæp 5% þjóðarinnar mættu á mótið sem jafngildir að nú myndu gestir á landsmótum vera rétt tæp 18 þúsund (!)

Mótið 1970, forsmekkur nýrra keppnisgreina
Á mótinu 1970 héldu kappreiðarnar sessi sínum sem eitthvert megin aðdráttarafl og spennuatriði mótanna eins og frá hefur verið sagt. Hvað góðhestakeppnina varðar var á þessu móti í fyrsta sinn keppt í tveimur flokkum: Flokki alhliða gæðinga (A-flokki) og í flokki klárhesta með tölti (B-flokki). Kynbótasýningar voru svo vitaskuld á dagskránni eins og fram kom í síðustu grein. Fleira var svo á dagskránni, s.s. sölusýning kl. 19 til 20.30 föstudagskvöldið 10. júlí eins og fram kemur í prentaðri dagskrá í mótsskrá landsmótsins. Líklegt er þó að hún hafi eitthvað riðlast eins og fleira á mótinu vegna óveðurs þess er ríkti og þeirra hörmungaratburða er hentu ekki langt frá mótssvæðinu.

Hitt er að sölusýningin fór fram með einhverjum hætti, það veit ég og eins hitt að dagskrárliður sem tímasettur var kl. 18 þann sama dag fór og fram en hann var kynntur svo: „Keppni góðhesta fyrir Evrópukeppni íslenzkra hesta í Þýzkalandi.“ Ólíklegt er að mótsgestir hafi almennt áttað sig á hver tíðindi það voru í raun eða upphaf hverrar þróunar það væri sem þeir urðu þarna vitni að. Hitt er að örugglega hefur þetta verið skemmtilegt en Gunnar Bjarnason (1915 – 1998) ráðunautur sem m.a. sinnti útflutningsmálunum á þessum tíma sá um báða þessa dagskrárliði og eins og hans var háttur var frjálslega að úrtökunni staðið með kátínu og mikilli aðkomu áhorfenda.

Um það allt má lesa í fréttaskrifum frá mótinu, m.a. í Morgunblaðinu og svo í starfssögu Gunnars en um stofnun FEIF, úrtökunni fyrir fyrsta Evrópumótið og mótið sjálft o.m.fl., má lesa á bls. 117 til 144 í 5. bindi Ættbókar og sögu íslenska hestsins á 20. öld, útgáfa POB á Akureyri 1989.

FEIF, sem í dag eru alþjóðleg samtök með aðild landssambanda félaga eigenda og unnenda íslenska hestsins í 21 landi, voru upphaflega stofnuð sem Evrópusamtök á árinu 1969 og voru stofnlöndin sex, Búnaðarfélag Íslands en Gunnar vann í umboði þess með mikinn tilstyrk frá Búvörudeild SÍS fór með aðildina fyrir Íslands hönd og greiddi framlag Íslands til rekstursins. Nafnið FEIF er ekki öllum vel skiljanlegt en upphafleg tillaga Gunnars var að samtökin hétu „Evrópusamband eigenda og ræktenda íslenzkra hesta“ (Europäische Islands-Pferde-Zuchter und Besitzer-Föderation) en á stofnfundinum var heitið „Föderation Europäischer Islandpferde Freunde“, þ.e. FEIF, samþykkt sem má þýða sem Samband evrópskra Íslandshesta vina.

Með heitinu má segja að áréttað hafi verið inntak félagsskaparins sem skyldi felast í vináttu við hestinn, þ.e. í áhugamennsku frekar en atvinnustarfsemi eins og hugmynd Gunnars bar með sér. Fyrsta Evrópumótið var svo haldið á búgarði Feldmann-feðga í Aegidienberg við Rín í ágúst 1989.

Niðurlagsorð
Í næstu grein verður sögunni framhaldið þar sem frá er horfið hér og svo í komandi greinum rakin saga þess hvernig til varð sú mikla flóra keppnisgreina íþróttakeppninnar á íslenskum hestum sem við þekkjum í dag og segja má að sé orðin þungamiðja sportsins.

Kristinn Hugason

Áður birst í 38. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir