Upplýsingafundur vegna móttöku flóttamanna

Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Hvammstanga, mánudaginn 11. febrúar kl. 17:00. Mynd: FE
Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Hvammstanga, mánudaginn 11. febrúar kl. 17:00. Mynd: FE

Mánudaginn 11. febrúar verður haldinn opinn upplýsingafundur vegna fyrirhugaðrar móttöku flóttamanna í Húnaþingi vestra. Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Hvammstanga og hefst hann klukkan 17:00.

Á fundinn mæta fulltrúar frá sveitarfélaginu, Rauða krossinum og félagsmálaráðuneytinu sem kynna verkefnið og svara spurningum. Einnig mætir þar verkefnastjóri frá síðasta verkefni og mun hann deila reynslu sinni, sem og einstaklingur sem kom til Hvammstanga sem flóttamaður árið 2016.

Á fundi sínum þann 13. desember sl. samþykkti sveitarstjórn Húnaþings vestra að taka á móti sýrlensku flóttafólki, um 25 einstaklingum, á árinu 2019.  Í bókun sveitarstjórnar frá fundinum segir að sveitarstjórn fagni framkomnu erindi og þeirri samfélagslegu ábyrgð sem því fylgir.  Einnig segir að samfélagið í Húnaþingi vestra sé umburðarlynt, skilningsríkt og styðjandi og þar sé til staðar fagþekking og stofnanir sveitarfélagsins séu öflugar. „Því er sveitarstjórn sannfærð um að vel verði staðið að móttöku, utanumhaldi og stuðningi við flóttafólk,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir