Úrslit vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2022

Umsjónarmanni vísnakeppninnar langaði til að sjá skemmtilegar vísur um Bjarna Har og hvað hagyrðingum dytti í hug til að yrkja til þess sómamanns. Mynd: ÓAB.
Umsjónarmanni vísnakeppninnar langaði til að sjá skemmtilegar vísur um Bjarna Har og hvað hagyrðingum dytti í hug til að yrkja til þess sómamanns. Mynd: ÓAB.

Úrslit voru kunngjörð í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2022 á setningu Sæluviku sem fram fór í Safnahúsinu á Sauðárkróki fyrr í dag. Þó ekki hafi verið um metþátttöku að ræða að þessu sinni, þar sem einungis sjö hagyrðingar sendu inn efni, komu ágætar vísur og botnar svo ekki var auðvelt frekar en áður að velja verðlaunabotn og vísu.

Reglur vísnakeppninnar eru sem fyrr einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.

Fyrripartarnir að þessu sinni hljóða svo:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.

Fyrir skömmu lést heiðursborgarinn og kaupmaðurinn Bjarni Haraldsson á Sauðárkróki, bæjarstjórinn í útbænum eins og einhver kallaði hann, en hann var hvers manns hugljúfi og þekktur út um allan heim. Umsjónarmanni vísnakeppninnar langaði til að sjá skemmtilegar vísur um Bjarna og hvað hagyrðingum dytti í hug til að yrkja til þessa sómamanns. Vísur um annað viðfangsefni var einnig leyfilegt og bárust fjölmargar.

Ekki er hægt að segja að metþátttaka hafi verið að þessu sinni þar sem einungis sjö hagyrðingar sendu inn efni en ágætar vísur og botnar svo ekki var auðvelt frekar en áður að velja verðlauna botn og vísu.

En sjáum það helsta sem kom upp úr hattinum. Hagyrðingar sendu inn efni undir dulnefnum og Gamli var greinilega kátur með frelsið frá Covidinu, en hann botnar:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.
Ég kjassa dátt og dansa mun
og djúsa þetta árið.

Á bak við nafnið Gamli reyndist vera Skarphéðinn Ásbjörnsson, Skagfirðingur búsettur á Akureyri.

Og Vorboði er einnig glaður en þar var Alfreð Guðmundsson á ferðinni:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.
Vonandi hér verða mun
vænna næsta árið.

Og Fákur botnar á þessa leið:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.
Nú er flestu fólki í mun
að faðmast þetta árið.

Fákur reyndist vera Pétur Stefánsson, Slétthlíðingur sunnan Heiða. 
Um hraunið í Meradölum segir Alfreð:

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Eldgos kom, þar yfir skreið
úfinn hraunsins strengur.

Rauðálfur er á svipuðum slóðum og segir:

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Hraun er þar á langri leið
líkt og svartur strengur.

Það var Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd sem notaði dulnefnið Rauðálfur.

Og Pálmi Jónsson sendi undir dulnefninu Nói gamli og er ekkert að skafa utan af því:

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Þessu veldur þeysireið,
þegiðu nú drengur.

Einn fyrriparturinn bauð upp á hringhendu og var misjafnt hvort botnasmiðir nýttu sér það. Pétur Stefáns botnar:

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.
Æsir hiklaust okkar þjóð
ástin kvik í meinum.

Skarphéðinn Ásbjörns segir:

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.
Meyjarblikin mild og rjóð
er mæta kvikum sveinum.

Og Ingólfur Ómar Ármannsson sem sendi inn undir nafninu Gustur botnar svo:

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.
Örmum lykur, örvar glóð
ástin kvik í meinum.

Og Alfreð hefur það svona:

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.
Ansi kvik á Amors slóð
ljá unaðs vik í þeynum.

Þar sem Skagafjörður er hvað þekktastur fyrir að vera meistaraverk skaparans er tilvalið að lýsa stemningunni þegar sólin skín.
Rúnar Kristjáns nýtir öll skilningarvit og segir:

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Jafnvel gegnum Gönguskörð
greina má hans hlátur.

Pálmi Jóns hugsar í sveitina:

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Bóndinn græðir búfjárjörð
og ber til hlöðu sátur.

Og Pétur botnar:

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Dýrkar þessa dýrðar jörð
drengir bæði og hnátur.

Og gott er að enda á þessari í tilefni Sæluvikunnar en botninn kemur einnig frá Pétri.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Í Sæluviku söm er gjörð
söngur; gleði, hlátur.

Eins og áður hefur komið fram fengu hagyrðingar nokkuð frjálsar hendur með viðfangsefni vísnanna sem senda mátti inn en þó var sérstaklega beint til þeirra að semja um Bjarna Har. Ekki þvældist það fyrir þeim.

Óttar Skjóldal, áður bóndi í Enni á Höfðaströnd sendi þessa inn:

Höfðingi með hýra lund.
Hér var lengi meðal okkar.
Nú gengið hefur á Guðs síns fund.
Glitrandi minning hugann lokkar.

Skarphéðinn yrkir:

Á ástúð hann var aldrei spar
né afar fallegt grín.
Út-bæjarstjórinn Bjarni Har,
blessuð sé minning þín.

Og Alfreð hefur það svona:

Af öllu bar hann Bjarni Har
bjart með hjartað þíða.
Ástsæll var með oft gott svar,
okkar skartið víða.

Rúnar Kristjáns minnist Bjarna á eftirfarandi hátt:

Burt er genginn Bjarni Har
betri menn ei finnast.
Í þeim karli kjarni var
kært er hans að minnast.

Eins og áður segir mátti einnig senda inn vísur um annað viðfangsefni og þannig sér Pétur Stefánsson sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði:

Skagfirsk saga, skráð og merk,
skrifuð oss til haga.
Sameinuð við stöndum sterk
í stórsjó lífsins daga.

Og lætur aðra fylgja um Fjörðinn fagra.

Hér á landi fátt er fegra;
fjöll og iðgræn jörð.
Ekkert veit ég yndislegra
en við Skagafjörð.

Og hér endum við á vísu Pálma Jónssonar og vona að þetta sé einmitt það sem flestir sjá við þessa saklausu iðju okkar á Sæluviku.

Vísnakeppni virða ber,
vinir gleðjast saman.
Þetta er orðið árlegt hér
og öllum þykir gaman.

Þá er bara eftir að opinbera hverjir þóttu hafa sent inn besta botn og bestu vísu. Að þessu sinni þótti botn Gamla fanga stemningu náttúrunnar mjög vel er hann botnaði svo vel:

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Laus úr klaka lifnar jörð,
við ljúfan söng og hlátur.

Gamli var, eins og áður kom fram, dulnefni Skarphéðins Ásbjörnssonar.
Besta vísan þótti lýsa Bjarna Har á sannan hátt og hljómar svo í hringhenduforminu:

Glaðværð ann að glettni hló
gæsku sanna bar´ann.
Geðs í ranni göfgi bjó
gull af manni var´ann.

Það er Ingólfur Ómar Ármannsson sem svo fallega yrkir til Bjarna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir