Úrslitarimman að byrja

Nú í kvöld hefst úrslitakeppni Express-deildarinnar í körfubolta með tveimur leikjum er Tindastóll heimsækir KR annars vegar og Grindavík tekur á móti nágrönnum sínum úr Njarðvík hins vegar. Á morgun fær Þór Þorlákshöfn Snæfellinga í heimsókn og Stjarnan tekur á móti Keflavík. Leikið er heima og heiman og það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslit. Annar leikur Tindastóls og KR verður á sunnudaginn á Sauðárkróki og hefst klukkan 19:15.

Helgi Rafn Viggósson aðaldriffjöður Tindastólsliðsins segist lítast vel á leikina við KR.
-Nú er bara að renna suður og vinna þennan leik, það er ekkert annað að gera, segir Helgi og er bjartsýnn á sigur í báðum leikjum því hann spáir 2-0 fyrir Stólana.
-Við erum ekkert í þessu bara til að vera með. Við förum í alla leiki til að vinna þá og við mætum klárir í þessa rimmu og vonandi verður nóg af áhorfendum sem fylgir okkur í DHL höllina og við sýnum þeim hvernig á að gera þetta, segir Helgi.

Eftir því sem Feykir kemst næst eru allir leikmenn leikfærir og segir Helgi Freyr vera tilbúinn í slaginn. –Það þýðir ekkert að vara meiddur núna, ég get verið það í sumar, segir Helgi en hann missti af síðasta leik vegna meiðsla sem hann varð fyrir á móti Snæfelli. -Ég er búinn að ná tveimur æfingum, stundum vont að grípa en annars er ég fínn.

Þá er bara að hvetja alla Skagfirðinga til að fjölmenna í DHL höllina í kvöld og styðja við bakið á Stólunum.

Fleiri fréttir