Útbjuggu túristatröppur í sjúkrahúsbrekkuna

Þeir mega vera ánægðir með tröppurnar nemendur úr málmiðnadeild FNV. Mynd: FNV.
Þeir mega vera ánægðir með tröppurnar nemendur úr málmiðnadeild FNV. Mynd: FNV.

Í brekkunni austan sjúkrahússins á Sauðárkróki hefur verið komið fyrir tröppum sem vakið hafa athygli þeirra er um hana fara. Var þeim komið fyrir þar sem brattast er í tröðinni sem myndast hefur og mikið notuð af gangandi fólki sem um göngubrúna fara.

Það voru nemendur úr málmiðnadeild FNV sem hönnuðu og smíðuðu tröppurnar.

Björn Sighvatz, kennari, segir að þeir hafi fengið hugmyndina þar sem erfitt sé að ganga stíginn þar sem hann er brattastur, sérstaklega í vætu. Mældu nemendur aðstæður á alla kanta og hönnuðu tröppurnar samkvæmt öllum stöðlum og smíðuðu. Voru þær síðan sendar í húðun upp á endingu að gera. Segir Björn svona smíði vera fyrirtaks túristatröppur sem hægt væri að setja niður á ferðamannastöðum þar sem göngustígar eru brattir og erfiðir.

Framtak nemenda og kennara þeirra þykir ansi gott en sérstakt leyfi þurfti frá sveitarfélaginu til að setja tröppurnar niður þar sem stígurinn er ekki á skipulagi en vonandi eiga tröppurnar eftir að þjóna sínum tilgangi um ókomin ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir