Útgáfu brautskráningarskírteina HÍ í tilteknum heilbrigðisgreinum flýtt

Háskóli Íslands hefur fallist á ósk heilbrigðisráðuneytisins um að flýta útgáfu brautskráningarskírteina þeirra nemenda í læknis- hjúkrunar- og lyfjafræði sem útskrifast í vor. Þetta er gert svo unnt sé að afgreiða starfsleyfi þessara stétta sem fyrst. Þetta flýtir því um tæpan mánuð að hlutaðeigandi geti ráðið sig til starfa með fullgild réttindi á heilbrigðisstofnunum og er til þess fallið að bæta mönnun á heilbrigðisstofnunum þegar sumarleyfi fara í hönd. Með þessari ráðstöfun er brugðist við ákalli Landspítala og lyfjaverslana sem þurfa að þjálfa nýútskrifaða heilbrigðisstarfsmenn til nýrra starfa áður en aðrir starfsmenn fari í sumarleyfi.

Undanfarin ár hefur færst í vöxt að útskriftarnemar í heilbrigðisgreinum sem hyggjast sækja um starfsleyfi en eru ekki komnir með formlegt prófskírteini, leggi fram vottorð með umsókn sinni til embættis landlæknis frá hlutaðeigandi menntastofnun, til marks um að þeir hafi lokið námi. Ekki hefur verið unnt að líta á slík vottorð sem ígildi prófskírteina til að byggja á útgáfu starfsleyfis.

Háskóli Íslands, heilbrigðisráðuneytið og embætti landlæknis hafa undanfarið fjallað um hvort mögulegt sé að flýta útgáfu fullgildra prófskírteina og þar með veitingu starfsleyfa. Áhersla hefur verið lögð á að í engu sé slakað á kröfum fyrir útgáfu starfsleyfa og að þau uppfylli eftir sem áður alþjóðlegar skuldbindingar varðandi viðurkenningu á faglegri menntun og hæfni.

Háskóli Íslands hefur upplýst heilbrigðisráðuneytið um að upplýsingar um hvort nemandi hafi staðist allar kröfur námsins liggi jafnan fyrir undir lok maí en prófskírteini hafa til þessa ekki verið gefin út fyrr en við formlega brautskráningu í lok júní. Útgáfa starfsleyfis frá embætti landlæknis tekur að jafnaði eina til tvær vikur frá því að umsókn með prófskírteini hefur borist. Sem fyrr segir leiðir þessi ráðstöfun til þess að unnt verður að gefa út starfsleyfi allt að mánuði fyrr en ella fyrir útskriftarnema í læknis- hjúkrunar- og lyfjafræði við Háskóla Íslands.

/stjornarradid.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir