Útgáfuhátíð Byggðasögu Skagafjarðar

Hjalti Pálsson og Óli Arnar Brynjarsson hafa löngum setið saman fyrir framan tölvuna í undirbúningi Byggðasögu en Óli hefur séð um umbrot frá og með 5. bindi. Hér fara þeir kappar yfir 7. bindið áður en það er sent í prent. (eða 9. bindið 2017). Mynd: Feykir.
Hjalti Pálsson og Óli Arnar Brynjarsson hafa löngum setið saman fyrir framan tölvuna í undirbúningi Byggðasögu en Óli hefur séð um umbrot frá og með 5. bindi. Hér fara þeir kappar yfir 7. bindið áður en það er sent í prent. (eða 9. bindið 2017). Mynd: Feykir.

Útgáfu Byggðasögu Skagafjarðar verður fagnað þriðjudaginn 10. desember, kl. 20:00 á Ketilási en út er komið níunda bindi í ritstjórn Hjalta Pálssonar og fjallar það um Austur Fljót, eða Holtshrepp hinn forna. Lesið verður úr nýju bókinni og flutt ávörp í tilefni útgáfunnar. Bókin verður til sýnis og sölu á staðnum og kostar eintakið 16.000 krónur. Allir eru velkomnir en íbúar í Fljótum og nærsveitum eru sérstaklega boðnir velkomnir og er aðgangur ókeypis og kaffi og meðlæti á boðstólum.

Byggðasaga Skagafjarðar hefur verið eitt viðamesta og metnaðarfyllsta verkefni í bókaútgáfu sem unnið er að á Íslandi á síðari tímum en í texta og myndmáli er fjallað um hverja einustu bújörð í Skagafirði sem í ábúð hefur verið einhvern tíma á bilinu frá 1780 til dagsins í dag en þær munu nálægt 660 talsins. Auk þess er veruleg umfjöllun um hvert sveitarfélag.

Útgáfan hófst með fyrsta bindi árið 1999 og er því komið að 20 ára afmælisútgáfu þegar 9. bindi þessa ritverks lítur dagsins ljós í byrjun desember. Nýja bókin sem fjallar um Holtshrepp í Fljótum er næstsíðasta bókin en ritsafnið verður samtals 10 bindi og standa vonir til að því ljúki haustið 2021. Hjalti Pálsson hefur séð um ritstjórnina frá upphafi og fékk Feykir hann til að segja frá nýjustu afurðinni.

„Þetta hefur nú allt gengið hægar en hugsað var í upphafi enda gerðu menn sér litla grein fyrir því hvað þeir væru að fara út í en það er farið að sjá fyrir endann á þessu þar sem þetta er næstsíðasta bindið. Þetta rit sem nú er að koma út fjallar um Austur-Fljótin, gamla Holtshrepp, um 50 jarðir og er tæpar 500 blaðsíður. Það er nú kannski sérkennilegt eins og Fljótin eru orðin mannfá og margar jarðir komnar í eyði þá eru fáar sveitir sem eru jafn vel birgar af rituðum heimildum og Fljótin,“ segir Hjalti og bendir á að þar hafi búið miklir menningarmenn sem skrifuðu ýmislegt hjá sér.

„Þarna voru menn sem skiptu sköpum um heimildir fyrir mig, Guðmundur Davíðsson, hreppsstjóri á Hraunum sem bjó þar 1896 til dauðadags 1942, en hann skrifaði m.a. dagbækur og gríðarlega mikið af þjóðsagnarefni og sagnaefni úr sveitinni. Ég lagði það á mig að lesa þetta allt saman og notaði mikið en dagbækur hans eru mörg þúsund blaðsíður. En það var ekki hægt að fjalla um Fljótin öðruvísi en fara yfir þetta efni. Svo var annar sem skrifaði mikið, Hannes Hannesson frá Melbreið. Á Héraðsskjalasafninu eru þó nokkuð margar og allþykkar bækur sem hann skrifaði um allskonar fróðleik. Pabbi minn, Páll Sigurðsson frá Lundi, á líka töluvert þarna en hann skráði heilmikið. Svo er það Sæmundur Dúason, sem gaf út ævisögu sína í þremur bindum, Einu sinni var. Það eru mjög merkar bækur og hef ég notað þær mikið í þessar Fljótabækur.“

Siglfirðingar flestir úr Fljótum
Í Stíflu voru 14 bæir þegar faðir Hjalta var lítill drengur en nú er þar einungis einn bær þar sem stundaður er landbúnaður ennþá, Þrasastaðir, fremsti bærinn í gamla Holtshrepp. „Þrasastaðir eru eitt stærsta fjárbú í Skagafirði og gæti verið með jafnvel meira fé en var í allri Stíflu á þessum tíma. Þetta er svona breytt en svo vitum við náttúrulega hvað er að gerst á Deplum en þar er búið með annars konar pening,“ segir Hjalti í léttum tón.

Ysti bærinn er Hraun, sem Hjalti telur hafa verið umfangsmesta jörðin í umfjöllun fyrir utan Hóla í Hjaltadal. „Hraun hefur svo gríðarlega mikla sögu. Þetta var einhver mesta hlunnindajörð á Íslandi. Þarna var aðalútróðrarstöðin í Fljótum og vel að merkja eina jörðin í Holtshreppi sem á land að sjó, sérkennilegt sem það er. Kringum aldamótin 1900 voru nokkur smábýli í grennd við Hraun sem fólk bjó á og lifði á sjávarafla og mikilli silungs- og selveiði.  En þarna var fjöldi af sjóbúðum og eitthvað á milli 10  og 20 bátar frá Hraunakróki.

Hjalti segir Fljótin hafa verið mjög þéttbýl og kannski hvergi verið þéttbýlla í nokkrum hreppi í Skagafirði. Á seinni hluta 19. aldar búa hátt í 800 manns í öllum Fljótum en núna eru þeir innan við 80. Um aldamótin 1900 eru yfir 500 mann, fólk sem lifir fyrst og fremst á sjófangi.

„Fólki fer að fækka mikið fyrir 1920. 1910 kemur afar hart ár og aftur 1918 og ´20. Á þessum árum fer fólk að flæða til Siglufjarðar en þá er uppgangur þar í síldinni og nóga atvinnu að fá. Það má segja að Fljótin séu uppeldisstöð fyrir Siglufjörð. Gríðarlegur fjöldi Siglfirðinga er kominn úr Fljótum eða rekur ættir sínar þangað,“ segir Hjalti og bendir á að eftir 1920 verður stöðug fækkun í Fljótum.

Nýja bókin um Holtshrepp í Fljótum kemur í sölu í byrjun desember og verður til sölu hjá Sögufélagi Skagfirðinga og kostar 16.000 kr. Panta má bókina hjá útgáfunni á saga@skagafjordur.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir