Vaðið á súðum
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2009 var afgreidd á fundi sveitarstjórnar 29. janúar síðastliðinn.
Það er öllum ljóst að fjárhagsstaða sveitarsjóð hefur verið erfið og batnar ekki á næstu árum miðað við fjárhagsáætlun ársins. Eigið fé sveitarsjóðs verður nánast upp urið á næsta ári að óbreyttri stefnu. Þrot sveitarsjóðs. Samt sem áður eru ráðgerðar fjárfestingar, sem aldrei fyrr. Fjölgun leikskólarýma á Sauðárkróki hefur verið ráðgerð um nokkurra ára skeið og brýnt að fara að sjá til lands í þeim efnum. Miðað við núverandi áætlanir má gera ráð fyrir að byggingakostnaður geti numið allt að 500 milljónum króna. Á þessu ári eru, samkvæmt fjárhagsáætlun, ætlaðar 250 milljónir í leikskólann og 50 milljónir til viðbótar í hönnun Árskóla, liður sem hét Árskóli-menningarhús viku fyrir samþykkt fjárhagsáætlunar. Áfram virðist eiga að vinna af fullum krafti að hönnun mannvirkja, sem taka yfir hluta af íþróttasvæðinu. Bygging leikskólans er stórt og fjárfrekt verkefni. Það er því alveg ljóst að sveitarfélagið mun ekki hafa burði til að byggja samhliða við Árskóla og jafnvel nýtt menningarhús, sem yrði reyndar á kolröngum stað.
Mér vitanlega hafa fulltrúar minnihlutans enga frekari vitneskju um fyrirhugaðar framkvæmdir við Árskóla, það má vel vera að búið sé að semja við arkitekta um hönnunina en engin gögn þar að lútandi hafa verið kynnt fulltrúum minnihlutans í byggðaráði og sveitarstjórn. Það vakna áleitnar spurningar um hvernig staðið er að þessum verkefnum. Formaður byggðaráðs skrifar í Feyki 5. febrúar síðastliðinn, viku eftir samþykkt fjárhagsáætlunar, að hönnun Árskóla fari senn að ljúka. Hvernig má það vera? Þrátt fyrir að ekki séu líkur á að hægt verði að ráðast í verkefnið næstu þrjú, fjögur árin miðað við núverandi efnahagsástand.
Hitt er svo annað mál að sveitarfélögum er skylt að viðhafa ákveðin vinnubrögð þegar ráðgerðar eru fjárfestingar, sem fara yfir vissan hluta af skattekjum.
Áætlaður heildarkostnaður beggja þeirra framkvæmda, sem hér hafa verið nefndar, nemur hærri upphæð en fjórðungi skattekna sveitarfélagsins. Lögbundin umsögn um fjárhagsleg áhrif framkvæmdanna lá ekki fyrir þegar sveitarstjórn samþykkti fjárhagsáætlun ársins og gerir ekki enn. Það eitt og sér er ámælisvert.
Ekki liggur heldur fyrir hvernig á að fjármagna þessar framkvæmdir og hvort það muni yfirhöfuð takast.
Athygli vöktu fréttir nýverið, þar sem fram kom að framkvæmdir við Miðgarð séu í hættu ef ríkið greiði ekki þrjátíu milljónir í verðbætur. Reyndar hélt ég að þessar þrjátíu milljónir væru löngu samþykktar. Þar vantar greinilega eitthvað upp á orð og efndir. Forseti sveitarstjórnar segir berum orðum að Sveitarfélagið Skagafjörður muni ekki geta greitt það sem upp á vantar, ef ekki nást samningar við ríkið. Samningar númer tvö.
Á sama tíma eru ætlaðar 50 milljónir í hönnunarvinnu vegna framkvæmda, sem ekki er útlit fyrir að hægt verði að ráðst í næstu þrjú, fjögur árin.
Framkvæmdir við endurbætur Miðgarðs eru reyndar kapítuli út af fyrir sig, dæmi um það hvernig ekki skal standa að verki, og efni í sér umfjöllun.
Ef ekki næst að afla fjár til að ljúka þeim framkvæmdum sem í gangi eru á vegum sveitarfélagsins, hvernig á þá að fjármagna þær framkvæmdir, sem samþykktar voru í lok janúar, með þeim ágöllum sem á þeim voru.
Gísli Árnason
VG Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.